Ég skrapp á Smúrtsinn eftir Boris Vian hjá Leikfélagi Kópavogs um á föstudaginn og varð heldur betur kátur. Þessi sýning er skýrt dæmi um hvað umræðan um áhuga og atvinnumenn í leiklist getur verið hjákátleg. Mælikvarðinn á góða leiklist eru leiksýningarnar sjálfar ekki hverjir eru í þeim eða hverjir stjórnuðu þeim. Hver pælir t.d. í því ef hann heyrir gott lag hver sé að spila eða taka upp. Maður nýtur bara þess sem gott er. Og Smúrtsinn er góð sýning.
Smúrtsinn er sérkennilegt verk og torskilið á stundum. Það er kallast þó mjög skýrt á við tilvistarleikrit Sartres og á stundum minnir það mann á Bubba leikrit Jarrés. Það fjallar eins og svo mörg verk tilvistarsinna um kvöl mannsins og hvað hann á erfitt með að höndla hana í tilveru sinni. Boris Vian gerir þetta þó án þess að áhorfandinn fái þunglyndiskast og fléttar saman skemmtilegum samtölum og harðneskjulegum uppákomum í eina allsherjar allegóríu um flótta mannsins frá sjálfum sér. Eða það er allavega mín túlkun á Smúrtsinum. Aðrir hafa örugglega aðra upplifun.
Leikfélag Kópavogs hefur verið að gera fína hluti undanfarin ár og er skemmst að minnast eftirminnilegra sýninga á Grimms og Hljómsveitinni. Þau róa á dálitið önnur mið í þetta skiptið bæði í verkefnavali og uppsetningu og tekst vel til. Vönduð og öguð leikstjórn Harðar Sigurðarsonar einkennir sýninguna og leikhópurinn er frábær.
Helgi Róbert Þórisson og Huld Óskarsdóttir eru urrandi góð sem faðirinn og móðirin og ég man ekki eftir Helga betri. Lovísa Árnadóttir nær vel hinni saklausu Zenobie og Bulla er frábærlega eftirminnileg í túlkun Ágústu Evu Erlendsdóttur. Nágranni Gísla Björns Heimissonar er skemmtilega bjánalegur og síðastan má telja Snorra Engilberts (sem er víst gestaleikari úr Leikfélagi Hafnarfjarðar) sem tekst að gæða Smúrtsinn einhverju sérkennilegasta lífi sem ég hef séð. Búningar, leikmynd, hljóðmynd og lýsing mynda síðan góða umgjörð um þessa eftirminnilegu sýningu og þar hefur verið vandað til verka.
Þetta er besta sýningin sem ég hef séð á þessu leikári og Smúrtsinn fær hjá mér þrjár stjörnur. Drífið ykkur að sjá þessa.
Lárus Vilhjálmsson