Síðasta vor blés Borgarleikhúsið til samkeppni í ritun sakamálaleikrita undir yfirskriftinni "Sakamál á svið". Keppnin var styrkt af Spron. Úrslit í keppninni voru kunngjörð í gær. Sigurverkið verður sett upp í Borgarleikhúsinu á næsta leikári auk þess sem annað verk verður sett upp af Útvarpsleikhúsinu. Alls eru sex verk í úrslitum, en hin fjögur verða leiklesin í Borgarleikhúsinu á næstunni. Alls bárust 31 hugmyndir að verkum í keppnina. Úr þeim voru 6 verk valin og höfundum þeirra gefnir fjórir mánuðir til að fullvinna handrit.
Í dómnefnd sátu:
Bjarni Jónsson, leikskáld
Guðjón Pedersen, leikhússtjóri
Jóhannes Helgason, menningarfulltrúi Spron
Jórunn Sigurðardóttir, útvarpskona
Steinunn Knútsdóttir, listrænn ráðunautur Borgarleikhússins

Fyrstu verðlaun hlaut verkið Fýsn eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann
Umsögn dómnefndar:
“Fýsn” er vel skrifað leikverk.  Viðfangsefni þess er viðkvæmt, en textinn er spennandi og áleitinn og á ýmsan hátt afar heillandi. Þetta er að sönnu ekki “hefðbundið sakamálaverk”, þar sem leitað er sökudólgs (“Who-done-it”), heldur er spurt HVERS VEGNA glæpurinn hafi verið framinn.  Hér er á ferðinni þroskað spennuverk sem bíður upp á flókna og spennandi fléttu og fullburða persónur.  Fléttan hvílir á óvæntum vendingum og spennan í verkinu dettur aldrei niður.  Leikrit Þórdísar Elvu á því fullt erindi á leiksvið.

Önnur  verðlaun hlaut verkið Net eftir Guðmund Brynjólfsson
Umsögn dómnefndar:
Þrír bræður í íslenskri sveitasælu kallast á við Þrjár systur Tjekofs.  Verkið er fyrst og fremst saga íslenskrar efnafjölskyldu í tilvistarkreppu.  Óuppgerðar syndir verða til þess að fólskuverk eru framin.  Saga fjölskyldunnar verður prófverkefni rannsóknarlögreglumanns sem er að hefja störf og fær að skyggnast inn í fortíðina, um leið og gátan er ráðin.  Höfundur skapar flókið fjölskyldumynstur þar sem hann kortleggur veikleika mannsins á skemmtilegan hátt.

Þriðju verðlaun hlaut verkið Mótleikur eftir Jón Hall Stefánsson.
Það verk var einnig valið til flutnings af Útvarpsleikhúsinu
Umsögn dómnefndar:
Sagan gerist í heimi nýrrar stéttar efnafólks á Íslandi.  Við fáum innsýn í tvöfalt siðgæði persónanna, valdafíkn og firringu þeirra, flökkum um í tíma með lögreglunni sem flettir smám saman ofan af misgöfugum ásetningi persónanna við yfirheyrslur.  Verkið nær að vekja áhuga á firrtum heimi peninga og valda, en gengur illa að skapa samúð með persónunum.  Þetta er kaldur heimur þar sem þrengt er að  hjartanu.  Verkið nær snjöllum snúningi í lokin sem kemur skemmtilega á óvart.

Önnur verk í úrslitum eru eftir Guðmund Kr. Oddsson, leikskáld og nema, Guðmund Hrafn Jónsson, blaðamann og Jónínu Leósdóttur, leikskáld.

Leiklestrar á úrslitaverkunum verða í Borgarleikhúsinu sunnudagana 5., 12., 19. og 26. nóvember kl. 20.00.