Brúðuleiksýningin Skrímslið litla systir mín verður frumsýnt í Norræna húsinu 4. febrúar. Það er Helga Arnalds sem er aðalhöfundur verksins og flytjandi en leikstjóri og meðhöfundur er Charlotte Böving og Eivör Pálsdóttir semur og flytur tónlist verksins. Sýningin er ætluð börnum frá 3 til 9 ára. Hún tekur um 40 mínútur í flutningi og vinnustofan eftir sýninguna er um 45 mínútur. Verkið er aðeins sýnt í febrúar.

Skrímslið litla systir mín segir frá strák sem hefur nýlega eignast litla systur. Hann kemst reyndar fljótlega að því að hún er ekkert venjulegt barn heldur skrímsli sem ætlar að éta mömmu hans upp til agna  og kannski bara allan heiminn. Til að bjarga mömmu sinni og öllum heiminum frá litla skrímslinu, þarf hann að ferðast gegnum skuggalega skóga, um dimmar drekaslóðir, alla leið út á heimsenda og hann lærir í leiðinni að elska litlu systur sína.

Skrímslið litla systir mín er leikhúsupplifun fyrir börn í hæsta gæðaflokki þar sem börnin taka þátt og upplifa í miklu návígi töfra leikhúss, tónlistar og myndlistar. Leikkonan býður börnunum inní hvítan pappírsheim. Pappírinn lifnar smám saman við og verður að persónum sögunnar. Leikkonan notar pappír, tónlist og ljós til að segja þeim sögu. Sögu um það hvernig maður getur lært að elska – jafnvel skrímsli.

Eftir sýninguna fá börnin svo tækifæri til að skapa úr pappírnum sem notaður var í sýningunni undir handleiðslu Helgu og Evu Signýjar sem báðar eru myndlistamenn. Þar verður m.a. hægt að búa til úr pappírnum litla skrímslið sem býr inní okkur öllum.

Aðrir aðstandendur eru
Hallveig Thorlacius, ljóðahöfundur
Páll Guðmundsson, hljóðfærasmiður
Eva Signý Berger, búningahönnuður
Jóhann Bjarni Pálmsson, ljósahönnuður
Úlfur Elíasson, höfundur grunnhugmyndar

{mos_fb_discuss:3}