Vinkonurnar Skoppa og Skrítla njóta ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar. Á síðasta leikári sýndu þær sitt fyrsta leikrit, Skoppa og Skrítla í leikhúsinu, í Þjóðleikhúsinu og sló sýningin rækilega í gegn. Nú er von á nýju leikriti með Skoppu og Skrítlu, og heitir það Skoppa og Skrítla í söng-leik. Sýningin verður frumsýnd í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins þann 3. apríl nk. Þegar er orðið uppselt á margar sýningar. Einungis verður sýnt um helgar í apríl og maí.

Í þessari nýju sýningu, Skoppa og Skrítla í söng-leik, fá þær vinkonur góðan liðsauka, en nokkrir dansarar á aldrinum 9-16 ára taka þátt og bregða sér í hin ýmsu gervi. Í sýningunni verður ferðast um öll heimsins höf. Ýmsar kunnar persónur verða á vegi Skoppu og Skrítlu, meðal annars Frelsistyttan í New York, Englandsdrottning og sjálfur Shakespeare. Sýningin er einkum ætluð yngstu leikhúsgestunum, og hentar vel fyrir þau börn sem eru að byrja að kynnast leikhúsinu. Hún er einkum hugsuð fyrir börn á aldrinum 9 mánaða til 6 ára.

Það var mikið um að vera hjá Skoppu og Skrítlu á síðasta ári. Sýningin þeirra Skoppa og Skrítla í leikhúsinu var meðal vinsælustu sýninga Þjóðleikhússins það árið og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem besta barnasýningin. Skoppa og Skrítla ferðuðust líka til Kaupmannahafnar, Afríku og Bandaríkjanna með sýninguna, og var hún valin sem athyglisverðasta barnasýningin í New York af tímaritinu Time Out.  

Sem fyrr fara Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir með hlutverk Skoppu og Skrítlu, en Hrefna er jafnframt handritshöfundur. Búninga gerir Katrín Þorvaldsdóttir. Hallur Ingólfsson útsetur og semur tónlist. Ásmundur Karlsson sér um lýsingu og Þórhallur Sigurðsson leikstýrir.

{mos_fb_discuss:2}