Ævintýrasöngleikurinn Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson verður frumsýndur á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu miðvikudagskvöldið 7. nóvember kl. 20. Hér er á ferðinni litríkt og fjörugt ævintýri fyrir alla fjölskylduna þar sem kunnuglegar persónur skjóta upp kollinum. Leikritið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1993 og sló eftirminnilega í gegn, enda hefur verk þetta alla burði til þess að verða sígilt. Í tilefni af sýningunni kemur samnefnd bók Þorvaldar út að nýju hjá forlaginu Bjarti auk þess sem tónlistin úr sýningunni er endurútgefin á hljómdiski.
Í Ævintýraskóginum búa fjölmargar litríkar persónur. Putti litli og Maddamamma eiga ýmsa ævintýralega vini, þar á meðal uppátækjasama og úrræðagóða dverga sem sinna mikilvægum verkefnum í skóginum. Það reynir á samstöðu og hugprýði hópsins þegar Nátttröllið rænir Putta litla og ætlar að breyta honum í tröllastrák. Þá þurfa allir íbúar Ævintýraskógarins að taka höndum saman til að bjarga honum áður en sólin hverfur bak við Sólarlagsfjall. Það kemur hinsvegar babb í bátinn þegar Nornin, Úlfurinn og Stjúpan vonda vilja ekki taka þátt í björgunarleiðangrinum.
Skilaboðaskjóðan var fyrsta leikrit Þorvaldar Þorsteinssonar í fullri lengd en hann hefur undanfarin ár starfað jöfnum höndum sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann er meðal annars höfundur bókanna um Blíðfinn, skáldsögunnar Við fótskör meistarans og leikritanna And Björk, Of Course og Sekt er kennd. Hann skrifaði einnig verkið Leitin að jólunum sem verður sýnt í þriðja sinn á aðventunni í Þjóðleikhúsinu.
Leikarar í Skilaboðaskjóðunni eru Birna Hafstein, Esther Talía Casey, Friðrik Friðriksson, Hjalti Rögnvaldsson, Ívar Helgason, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Sara Marti Guðmundsdóttir, Sigurður Hrannar Hjaltason, Valur Freyr Einarsson, Þórir Sæmundsson og Þórunn Lárusdóttir. Með hlutverk Putta litla fer ungur og upprennandi leikari, Hrafn Bogdan Haraldsson, en auk þess syngja og dansa átta hæfileikaríkar stúlkur í sýningunni.
Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Helgason, leikmynd hannar Frosti Friðriksson en um hönnun búninga sér Þórunn María Jónsdóttir. Hún hannar jafnframt leikgervi ásamt Árdísi Bjarnþórsdóttur. Helena Jónsdóttir er höfundur dansa og sviðshreyfinga. Jóhann G. Jóhannsson tónlistarstjóri Þjóðleikhússins er höfundur tónlistarinnar í verkinu en hann hefur einnig samið ný lög fyrir þessa sýningu. Sjö manna hljómsveit leikur í sýningunni.
{mos_fb_discuss:2}