Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýnir laugardaginn 6. apríl barna- og fjölskylduleikritið Sjóræningjaprinsessuna eftir Ármann Guðmundsson, einn af meðlimum Ljótu hálfvitanna, en hann semur einnig tónlistina ásamt Guðmundi Svafarssyni. Söngtextar eru eftir Ármann og Sævar Sigurgeirsson. Leikstjóri er Lárus Vilhjálmsson og er leikritið sýnt í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti.

Verkið fjallar á ærslafengin hátt um ævintýri barnanna Soffíu og Matta sem alist hafa upp hjá gistihúsinu Sporðlausu hafmeyjunni á friðsælli eyju í Suðurhöfum allt frá því að Soffía kom þangað með dularfullum hætti sem ungabarn. Ólíkt Matta uppeldisbróður sínum þráir hún að lenda í ævintýrum og heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjóræningjaprinsessa, fósturforeldrum sínum til mikillar armæðu. En svo gerist það eitt óveðurskvöld að tveir grunsamlegir náungar skjóta upp kollinum á Sporðlausu hafmeyjunni og áður en Soffía veit af er hún komin út á rúmsjó með stórhættulegum og ótrúlega heimskum sjóræningjum á leið til Milljónmaðkaeyju þar sem mannætur ráða ríkjum.

Næstu sýningar á verkinu eru sunnudagana 14. 21. og 28. apríl kl. 14.00.

Hægt er að panta miða á midi.is og í síma 5655900.