Lárus Vilhjálmsson skrapp á sunnudaginn á sýningu hjá Versló sem heitir Sólstingur. Hann hefur áður farið á nemendamótssýningar þeirra Verslinga og verið afar hrifinn af þeim metnaði sem þau leggja í þessar sýningar.
Gagnrýni Lárusar er hér.
Sólstingur hjá Versló
solstingur01
**
Ég skrapp núna á sunnudaginn á sýningu hjá Versló sem heitir Sólstingur. Ég hef áður farið á nemendamótssýningar þeirra verslinga og hef verið afar hrifinn af þeim metnaði sem þau leggja í þessar sýningar. Þarna hefur söngur og dans verið í hæsta gæðaflokki, leikur oft góður og maður hefur skemmt sér vel þótt að söngleikir bjóði kannski ekki upp á mikinn andlegan upphristing.
Sólstingur er eins og fyrri sýningar verslinga metnaðarfull og kraftmikil sýning og margt er snoturlega gert. Hún fjallar um útskriftarferð verslinga til Spánar og segir frá ástarflækjum þeirra og partístandi. Sýningin er síðan reglulega brotin upp með söng og dansnúmerum. Eins og fyrri daginn eru þarna í hverju rúmi hörku söngvarar og dansarar sem hrífa mann og maður spyr sig af hverju Stöð 2 er að leita að Idolinu um allt land þegar þau eru eiginlega öll þarna í sýningunni. Tónlistin var afar skemmtileg eftir fjölda listamanna frá Bítlunum til Coldplay og tónlistarstjórnin í pottþéttum höndum Jóns Ólafssonar. Dansatriðin voru mörg afar skemmtilega útfærð af Helenu Jónsdóttur og búningar voru oft ótrúlega hugmyndaríkir. Af þeim atriðum sem voru einna eftirminnilegust er helst að nefna Offspring lagið Fola sem var bæði vel útfært og flutt og alveg drepfyndið. Einnig var óborganlegur flutningur Pálmars Þórs Hlöðverssonar á Prince laginu Kiss og ekki skemmdi flott kóreógrafía. Jón Ragnar Jónsson átti síðan fína spretti í U2 laginu Von og í Sólsting Robbie Williams. Leikurinn hjá krökkunum var ágætur. Davíð Gill Jónsson og Svandís Dóra Einarsdóttur voru einkar skemmtilegt fararstjórapar og Rúnar Ingi Einarsson var skemmtilegur sem afar uppáþrengjandi og leiðinlegur verslingur (hann hlýtur að hafa villst úr MH).
Sólstingur18Þó eru brotalamir á sýningunni sem draga hana niður og ber þar helst að nefna handritið sem er afar lítið fyndið og Þorsteini Guðmundssyni ekki til mikils sóma. Textinn var einhvernveginn þannig að manni fannst leikararnir eiga erfitt með að flytja hann. Maður er bara eiginlega hissa því að Þorsteinn hefur skrifað afar skemmtilega og fyndna texta í gegnum tíðina. Í Sólsting er textinn oft notaður sem uppfylling á milli laga með engu sjáanlegu markmiði eða almennilegu gríni. Maður sá að formið sem notað var svipaði til amerískra gamanþátta eins og Friends en einhvernvegin gekk það ekki upp í þessari sýningu. Í fyrsta lagi var textinn ekki nógu fyndinn í innslögunum og skipting á milli innslaga var of rykkjótt og handahófskennd.
Einnig verð ég að amast við leikstjórninni sem mér fannst heldur tilviljanakennd og ómarkviss. Sum atriði voru teygð úr hófi á meðan önnur voru alltof stutt. Leikstjórinn hefði líka mátt stytta sýninguna sjálfa um 15 – 20 mínútur, sleppa óþarfa atriðum og þótt það sé á stundum skemmtilegt að fá leikara út í sal þá gekk það úr hófi í þetta skipti. Það má þó segja Jóhanni leikstjóra til hróss að honum hefur tekist að ná fínum krafti og leikgleði úr hópnum.
En þrátt fyrir þessar brotalamir eru stjörnurnar í þessari sýningu krakkarnir í Versló sem vantar svo sannarlega ekki kraftinn og hæfileikanna. Bara fyrir það er alveg þess virði að eyða kvöldstund með þeim.
Ég gef Sólsting tvær stjörnur.
Lárus Vilhjálmsson