Dagana 6. og 7. desember verða síðustu sýningar Lab Loka á leikritinu Stóru börin eftir Lilju Sigurðardóttur í Tjarnarbíói. Stóru börnin fjallar á margræðan hátt um gildi ástarinnar. Þó verkið hafi nokkuð hefðbundna leikhúsumgjörð er umfjöllunarefnið nýstárlegt og varpar fram spurningum sem vel eiga heima í nútímanum. Er ástin einungis einhvers virði ef hún er ókeypis? Missir hún gildi sitt ef borgað er fyrir hana? Hættir hún þá að vera alvöru ást? Og síðast en ekki síst: er sá sem selur ástina frjáls í því að falbjóða?

Miðaldra smiðurinn Kristján kemur í hús Mömmu í leit að ást sem hann hefur lengi þráð. Ást sem hann er tilbúinn til að borga fyrir. Móðurást. Mamma elskar hann og annast fyrir ákveðna upphæð – rétt eins og hin stóru börnin sín. Stóru börnin sem þurfa svo mikið, krefjast svo mikils, þroskast svo hratt. Mamma sinnir þörfum þeirra, nærir þau, þrífur þau, huggar þau og veitir þeim ráðningu þegar þau eru óþekk.

Stóru börnin er líflegt og skemmtilegt sviðsverk sem hreyfir við tilfinningunum jafnt og hugsuninni. Í uppsetningu Lab Loka fer úrvalslið leikara með hlutverkin undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein og Stefán Hallur Stefánsson.

Þar sem kynferðislegur undirtónn er í verkinu telst það ekki við hæfi barna.