Nú um helgina verða allra síðustu sýningar á vorverkefni Hugleiks, Spilaborgum. Sýnt verður í kvöld, föstudaginn 10 maí, og svo laugardaginn 11. og sunnudaginn 12. en aðeins sex sýningar voru áformaðar þannig að nú fer hver að verða síðastur. Allar sýningarnar eru kl. 20 og sýnt er í húsnæði félagsins að Eyjarslóð 9. Höfundur er Ásta Gísladóttir og leikstjórar Þorgeir Tryggvason og Sigurður H. Pálsson.

Leikritið fjallar um hvað gerist þegar ungur maður finnur tösku fulla af peningum ásamt absinthe-flösku og illa kveðnu ljóði. Hann á í talsverðum vandræðum með að reikna út hvernig best er að vinna úr stöðunni þótt nágrannarnir, stúlkan sem hann er kannski skotinn í og ósýnilegir vinir séu allir af vilja gerðir til að aðstoða. Ekki hjálpar að móðir hans hefur haldið fyrir í rúminu í 10 ár og þarf stanslausa umönnun. Allt vefst þetta þó nokkuð fyrir honum og tefur hann frá uppáhaldsiðjunni, að byggja spilaborgir. Fyrir vikið eru ævintýri drengsins kvöldstundarinnar virði.

Almennt miðaverð er 2.000 kr. en 1.000 kr. fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja. Hægt er að bóka í gegnum miðasölukerfið á vef Hugleiks en allar nánari upplýsingar um uppsetninguna má nálgast þar á vefnum.