Sérstök aukasýning verður á Súldarskeri eftir Sölku Guðmundsdóttur í Tjarnarbíói miðvikudagskvöldið 28. mars kl. 20. Þessi bráðskemmtilega sýning sló rækilega í gegn þegar hún var frumsýnd í fyrra og hlaut mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda, en sýningum var hætt fyrir fullu húsi vegna anna. Meðal annars var Súldarsker tilnefnt til tvennra Grímuverðlauna. Hópurinn er nýkominn úr leikferð til Akureyrar þar sem sýningin var leikin tvisvar fyrir fullu húsi. Í tilefni þess var ákveðið að leyfa skerinu að rísa í allra síðasta sinn næstkomandi miðvikudagskvöld.

Tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, árásargjarnir mávar, krullumót í félagsheimilinu og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu.

Þær Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir fara með öll hlutverkin í sýningunni sem alls eru tæplega tuttugu talsins, en auk þeirra kemur tónlistarmaðurinn Ólafur Björn Ólafsson fram í Súldarskeri. Leikhúskonan fjölhæfa Harpa Arnardóttir leikstýrði verkinu.

{mos_fb_discuss:2}