ImageLeikfélag Fljótsdalshéraðs hefur hafið æfingar á verkinu Sex í sveit eftir Marc Camoletti. Oddur Bjarni Þorkelsson leikstýrir. Stefnt er að frumsýningu í félagsheimilinu Iðavöllum á Völlum í nóvemberbyrjun. Æfingar hafa farið nokkuð hægt af stað en mönnun verksins hefur gengið nokkuð erfiðlega sökum einstaks atvinnugóðæris eystra.

Gamanleikritið Sex í sveit heitir á frummálinu Pyjamas pour Six og var upphaflega frumsýnt árið 1988. Gísli Rúnar Jónsson þýddi verkið síðan upphaflega fyrir Leikfélag Reykjavíkur, en þar var það frumsýnt 1997. Sýningin hlaut mjög góðar viðtökur hér á landi.

Leikstjórinn, Oddur Bjarni Þorkelsson er Héraðsbúum að góðu kunnur, en hann hefur starfað talsvert fyrir austan. Áður hefur hann sett upp sýningarnar My Fair Lady (1999), Þrek og Tár (2002) og Gaukshreiðrið (2003) með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Stútungasögu (2003) með Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum.