Félagar í Umf. Reykdæla hafa oft á tíðum farið ótróðnar slóðir í verkefnavali. Undanfarnar vikur hafa þeir staðið í ströngu og eru nú að færa á svið í Logalandi nýjan frumsaminn söng- og gamanleik eftir heimamenn. Höfundar eru þeir Bjartmar Hannesson bóndi á Norður Reykjum og Hafsteinn Þórisson bóndi og tónlistarkennari á Brennistöðum. Hafsteinn samdi 18 lög við texta Bjartmars. Vinnuheiti verksins er Sendu mér SMS en leikurinn gerist á töðugjaldadansleik í ónefndu félagsheimili úti á landi.

 

En hvernig kviknaði sú hugmynd að semja söngleik í fullri lengd? Hafsteinn Þórisson lagahöfundur verður fyrir svörum: „Það eru eiginlega nokkur ár síðan grunnurinn að þessari hugmynd varð til. Þá fékk ég tvo söngtexta hjá Bjartmari til að hafa með lögum sem ég ætlaði þá að senda inn í dægurlagakeppni. Mér fannst reyndar þá að þessir textar pössuðu betur fyrir söngleik en það varð ekkert meira úr því. Á gleðifundi síðastliðið haust viðraði ég hinsvegar þessa hugmynd við Bjartmar. Hann hringdi svo nokkrum dögum síðar í mig og þá fór boltinn að rúlla og hefur ekki stoppað síðan. Jólafríið hjá mér fór síðan í lagasmíðar; Bjartmar dældi í mig textum og ég fór að semja. Lögin eru nú orðin 18 talsins þannig að nú erum við með söngleik í fullri lengd og æfingar komnar vel á veg,“ segir Hafsteinn.

Vígalegar persónur
Söguþráðurinn í Sendu mér SMS er töðugjaldadansleikur úti á landi. Verkið gerist að stærstum hluta í anddyri félagsheimilis meðan gestirnir eru að mæta á töðugjaldaball. Síðan færist leikurinn inn og ýmsar persónur koma við sögu. Þarna er til dæmis sveiflukóngur á fullu og formaður kvenfélagsins sem gerir usla. Þá er þessi dæmigerði húsvörður sem venjulega sinnir viðhaldi og öðru, dyravörðurinn er steratröll að sunnan sem er náskyldur Árna Johnsen. Þarna kemur einnig við sögu hestamaður sem mætir blindfullur á ballið og gestur sem er alltof ungur til að mega fara á böll. Svo er náttúrlega slagsmálahundur mættur og í eldhúsinu er gamla konan sem hellt hefur upp á kaffi fyrir sveiflukónginn í fimmtíu ár. Allir taka þessir karakterar lagið ýmist í syngjandi sveiflu eða rólegri ballöðum.

Í Sendu mér SMS kemur kvarthundrað leikara, söngvara, hljómsveitar- og aðstoðarfólks við sögu. Bjartmar Hannesson þekkja allir Borgfirðingar en hann hefur samið ótölulegan fjölda gamanvísna um menn og málefni líðandi stundar í héraðinu. Hafsteinn segir að þetta sé frumraun sín á þessu sviði en hann hafi reynslu sem felist í að hafa starfað sem tónlistarkennari og hljómsveitarmeðlimur um árabil. „Ég hef stundum sent eitt og eitt lag í keppni en aldrei gert neitt í líkingu við þetta áður. Ég er því afar spenntur að sjá hvernig til tekst en við stefnum á að frumsýna í lok mars. Ég held samt að ég geti lofað hressilegri sýningu,“ segir Hafsteinn að lokum.

mm