Söngleikurinn Söngvaseiður, sýning Litla leikklúbbsins og Tónlistarskólans á Ísafirði, var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2002-2003. Söngvaseiður verður sýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins sunnudagskvöldið 25. maí nk. Söngvaseiður í Þjóðleikhúsinu – Niðurstaða dómnefndar
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram tíunda leikárið í röð. Tólf leikfélög sóttu eftir að koma til greina við valið með alls þrettán sýningar. Dómnefndin, eða í sumum tilfellum hluti hennar, sá allar sýningar á heimavelli. Auk þess gafst dómnefndarmönnum, sem ekki höfðu séð viðkomandi sýningu á sviði, þess kostur að sjá þrjár sýningar á myndbandi. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Stefáni Baldurssyni þjóðleikhússtjóra, Melkorku Teklu Ólafsdóttur, leiklistarráðunauti Þjóðleikhússins og Ragnheiði Steindórsdóttur leikkonu.
Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:
* Leikfélag Dalvíkur með Kverkatak eftir Júlíus Júlíusson í leikstjórn höfundar.
* Leikfélag Fljótsdalshéraðs með Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson.
* Stúdentaleikhúsið með Íbúð Soju eftir Mikhaíl Búlgakov. Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson.
* Ungmennafélagið Íslendingur með Taktu lagið, Lóa eftir Jim Cartwright. Leikstjóri: Guðmundur Ingi Þorvaldsson.
* Leikfélag Mosfellssveitar með Beðið eftir go.com air eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar.
* Leikfélag Hafnarfjarðar með Sölku miðil eftir Ármann Guðmundsson, Gunnar Björn Guðmundsson og leikhópinn. Leikstjóri: Ármann Guðmundsson.
* Leikfélag Mosfellssveitar með Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien. Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Oddur Bjarni Þorkelsson.
* Hugleikur með Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur. Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir.
* Leikfélag Seyðisfjarðar með Lífsháska eftir Ira Levin. Leikstjóri: Ágúst Torfi Magnússon.
* Freyvangsleikhúsið með Káin eftir Hannes Örn Blandon. Leikstjóri: Saga Jónsdótir
* Leikdeild Ungmennafélags Reykdæla með Góðverkin kalla eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri: Valgeir Skagfjörð.
* Litli leikklúbburinn í samvinnu við Tónlistarskóla Ísafjarðar með Söngvaseið eftir Rodgers og Hammerstein. Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir.
* Leikfélag Sauðárkróks með Ertu hálf-dán? eftir Hávar Sigurjónsson. Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson
Eins og jafnan hafði dómnefnd mikla ánægju af að sjá allar þessar sýningar og verða vitni að því kraftmikla og mikilvæga starfi sem áhgaleikfélögin standa fyrir um land allt. Líkt og oft áður viljum við gjarnan nefna sérstaklega nokkrar sýningar hér í kvöld. Dómnefnd sá meðal annars tvo viðamikla söngleiki, Þrek og tár hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Söngvaseið hér á Ísafirði. Þátttakendur í þessum sýningum stóðu sig einstaklega vel, jafnt í söng- og leikatriðum. Aðdáunarvert er hversu vel leikfélögin ráða við að setja upp viðamikil verkefni af þessu tagi, og hve mörg leikfélög hafa gott söng- og tónlistarfólk innan sinna vébanda.
Sýning Freyvangsleikhússins um skáldið Káin eftir Hannes Örn Blandon var einnig meðal þeirra sýninga sem vöktu sérstaka athygli dómnefndar. Sýningin er unnin í anda byggðaleikhúss, þar sem félagi úr leikfélaginu semur leikrit um persónur sem tengjast svæðinu. Það er alltaf lofsvert þegar áhugaleikfélögin standa fyrir samningu nýrra leikverka og þá ekki síður þegar verkið tengist sögu og menningu byggðarlagsins. Sýningin var skemmtileg með kraftmiklum tónlistaratriðum í stíl þessa ágæta leikfélags. Það er gaman að geta þess að af þeim þrettán sýningum sem dómnefndin sá voru átta á íslenskum verkum og í sex tilvikum var um frumflutning að ræða. Okkur langar að minnast sérstaklega á öflugt starf Júlíusar Júlíussonar, formanns Leikfélags Dalvíkur og félaga hans. Júlíus samdi og leikstýrði leikritinu Kverkatak, þar sem unglingar fóru með öll hlutverk. Greinilegt var að sýningin hafði verið unnin af miklum krafti og að unga fólkið hafði haft sérstaklega gaman – og ekki síður gott – af því að taka þátt í þessari skemmtilegu sýningu. Nýlega stóð fræðsludeild Þjóðleikhússins fyrir opnum fundi um leiklistarkennslu í grunn- og framhaldsskólum, og var þar meðal annars fjallað um hversu öflugt tæki leiklistin gæti verið til að efla þroska fólks, hugarflug þess, sjálfsvitund og samskiptahæfni. Áhugaleikfélögin gegna mikilvægu hlutverki í því að kynna ungu fólki leiklist og með frjóu samstarfi við ungt fólk hafa þau átt sinn þátt í að efla áhuga nýrra kynslóða á leikhúsinu, auk þess að hafa þroskavænleg áhrif á það unga fólk sem tekur þátt í sýningum þeirra. |
Þrjár sýningar vöktu sérstaka athygli dómnefndar fyrir frumleika og hugmyndaauðgi í útfærslu, Beðið eftir go.com air eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar hjá Leikfélagi Mosfellssveitar, Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur hjá Hugleik og sýning Leikfélags Hafnarfjarðar á Sölku miðli í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar, sem jafnframt samdi verkið ásamt öðrum og lék burðarhlutverk í sýningunni. Í öllum þessum sýningum náði leikhópurinn tilætluðum áhrifum með ágætum leik, í anda og stíl hverrar sýningar.
Segja má að Salka miðill hafi verið óvenjulegasta áhugasýning ársins. Sýningin veitti áhorfendum nýstárlega og magnaða leikhúsupplifun og var jafnframt mjög vel unnin. Eins og margir hér vita er sýningin byggð upp eins og miðilsfundur, og allt frá því áhorfendur stíga inn í leikhúsið eru þeir umluktir andrúmi miðilsfundarins. Raunar fylgir sýningin áhorfendum allt út á götu undir lokin. Sýningin var sýnd fyrir fáa áhorfendur í senn, í litlu rými, og voru umgjörð hennar og leikur leikaranna til þess fallin að skapa áhrifaríka mynd af miðilsfundi. Óvenju vel unninn raunsæislegur leikur, mikil nálægð við áhorfendur og trúverðug leikmynd höfðu þau áhrif að áhorfandinn gekk fyrirhafnarlaust inn í raunveruleika sýningarinnar. Salka miðill er leiksýning þar sem unnið er á óhefðbundinn og skemmtilegan hátt með leikhúsformið.
En þá er komið að áhugasýningu ársins. Eins og oft áður var valið erfitt, því margar sýningar voru afar vel heppnaðar, hver á sinn hátt. Dómnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2002-2003 sýningu Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Söngvaseiði eftir Rodgers og Hammerstein í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur.
Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi: Sýning Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Söngvaseiði er einstaklega metnaðarfull sýning og má segja að það sé þrekvirki hjá þessum aðilum að setja upp söngleik af þessari stærðargráðu með þessum árangri. Mikið hefur verið lagt í umgjörð sýningarinnar, hópatriði og tónlistaratriði, auk þess sem verulega reynir á þátttakendur í leik, dansi og söng. Leikarar í sýningunni eru á öllum aldri, og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað barnahópurinn stóð sig vel, enda dyggilega studdur af sterkum hópi eldri leikara. Allt yfirbragð sýningarinnar var tilgerðarlaust og agað, og tókst aðstandendum og leikurum með einlægni og húmor að sneiða hjá þeirri tilfinningasemi sem óneitanlega býr í verkinu. Í Söngvaseiði sameinar tónlistarfólk og leikhúsfólk krafta sína í óvenjulega heilsteyptri sýningu sem allt bæjarfélagið má vera stolt af.
Þjóðleikhúsið óskar Litla leikklúbbnum og Tónlistarskóla Ísafjarðar til hamingju og býður þeim að koma og sýna Söngvaseið í Þjóðleikhúsinu sunnudagskvöldið 25. maí 2003.