Taktu frá laugardagskvöldið 19. ágúst næstkomandi. Þér er hér með boðið á leiksýningu í Tjarnarbíói klukkan 19:00 á Menningarnótt.

Heimspeki- og menningarfélag Menntaskólans á Akureyri (HOMMA) og Leikklúbburinn Saga setja á svið leikritið Fyrir luktum dyrum eftir Jean-Paul Sartre. Verkið er í þýðingu Ásgeirs Berg Matthíassonar, sem einhverjir kunna að þekkja sem fyrirliða Gettu betur liðs MA. Skúli Gautason leikstýrir.

Fyrir luktum dyrum er eitt af þekktari bókmenntaverkum 20. aldarinnar og heitir á frummálinu Huis-clos en No Exit í enskri þýðingu. Það fjallar í stórum dráttum um þrjár manneskjur sem deyja og dæmast til helvítisvistar. Þegar þangað er komið komast þær að raun um að helvíti er hvorki eldur, brennisteinn né líkamlegar kvalir, heldur sjá þær um að kvelja hver aðra í sjálfsköpuðu víti. Verkið var frumsýnt á Litla-Hrauni 12. maí síðastliðinn og var sýnt á Akureyri út maímánuð.

Fyrir luktum dyrum hlaut góðar viðtökur hjá leiklistargagnrýnanda Morgunblaðsins, Hrund Ólafsdóttur. Þegar leikárið var gert upp hjá áhugaleikfélögum landsins veitti Hrund sýningunni tvo Tréhausa, áhugaleikhúsverðlaunin 2006, annars vegar fyrir bestu þýðingu (Ásgeir Berg Matthíasson) og hins vegar fyrir besta leikara í aðalhlutverki (Ævar Þór Benediktsson). Verkið hlaut einnig fjórar tilnefningar; bestu leikkonur í aðalhlutverki (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir), besti leikstjóri (Skúli Gautason) og besta sýning.

Verkið verður, eins og áður hefur verið sagt, sýnt í Tjarnarbíói klukkan 19:00, þann 19. ágúst næstkomandi. Aðgangur er ókeypis.