Föstudaginn 16. september kl. 13.00 verður opinn samlestur á nýju verki Sölku Guðmundsdóttur, Extravaganza. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni.  Allir velkomnir og heitt kaffi á könnunni.

Lýdía býr í fyrrum félagsblokk í úthverfi Reykjavíkur sem breytt hefur verið í gistirými fyrir ferðamenn. Gegn því að tékka ferðamenn inn og út úr blokkinni og afgreiða í lundabúðinni sem rekin er í sameigninni leyfir fasteignafélagið Porcellus henni að búa þar áfram. Án vitundar Porcellus hefur áhugasagnfræðingurinn Guðbrandur Númi hreiðrað um sig í geymslurými en fer um borgina að næturlagi í leit að pússlum í borgarsöguna.

Þegar Porcellus tekur að ógna tilveru þeirra beggja taka þau höndum saman um að láta drauma sína rætast: Þau setja upp epíska Reykjavíkurrevíu Guðbrandar í blokkinni og safna fé til að fljúga Lýdíu á vit milljónamæringa á samkomunni Super Life Extravaganza í Düsseldorf.

Extravaganza er grátbroslegt gamanleikrit eftir leikskáld Borgarleikhússins. 

Extavaganza er í samstarfi við leikhópinn Soðið svið. 

Aðstandendur Höfundur: Salka Guðmundsdóttir | leikstjóri: Ragnheiður Skúladóttir | Leikmynd: Brynja Björnsdóttir | Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir | Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson| Tónlist & hljóðmynd: Ólafur Björn Ólafsson |  Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, María Heba Þorkelsdóttir & Sveinn Ólafur Gunnarsson.