Samfarir Hamfarir er nýtt sviðlistaverk eftir Natan Jónsson og Þórunni Guðlaugs í uppsetningu Leikfélagsins Hamfarir.
Allt gengur á afturfótunum hjá Þórunni. Við ferðumst inn í hugarheim hennar en nýliðnir atburðir hafa þvingað hana til þess að gera upp fortíð sína. Hún reikar úr einni minningu yfir í aðra þar sem samskipti hennar við hitt kynið í gegnum tíðina eru dregin upp á yfirborðið á fyndinn jafnt sem sorglegan máta.
„Aldrei datt mér í hug að ég myndi sofa hjá Búra.”
Upprunalega kemur hugmyndin á bak við verkið frá Þórunni Guðlaugs. Sagan er sögð útfrá fyrstu persónu og er Þórunn því að túlka Þórunni á sviðinu. Margar af minningunum sem hún flakkar á milli koma frá henni sjálfri og eru úr hennar lífi en aðrar eru annað hvort sögur frá fólkinu í kringum hana og Natan eða eru hreinn skáldskapur. Áhorfandinn veit því aldrei hvað er byggt á raunveruleika og hvað ekki.
Samfarir Hamfarir snertir á ýmsum flötum af því hvernig ung kona upplifir sig í nútímasamfélagi og hversu mikil áhrif atvik úr fortíðinni hafa á hana enn þann dag í dag. Það er árið 2015 en ennþá þurfa konur að passa upp á dyggð sína ef þær vilja vera metnar af verðleikum sínum.
Hvað þýðir það að vera kona? Af hverju er það oft á tíðum svona mikil barátta? Hvers vegna mega konur ekki haga sér eins og karlmenn án þess að fá á okkur einhvern stimpil?
Þórunn Guðlaugs útskrifaðist sem leikkona frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2010 og hefur verið iðin jafnt sem leikkona og framleiðandi, bæði á sviði og í kvikmyndum frá útskrift. Hún fór með aðalhlutverk í verkinu Völuspá sem danska leikhúsið Teater Republique setti upp í Norræna Húsinu árið 2011 og aftur ári seinna í Carlsberg Byen í Kaupmannahöfn undir leikstjórn Martin Tulinius. Verkið hlaut tvennar tilnefningar til Grímunnar árið 2012.
Natan Jónsson útskrifaðist af Leikstjórnar & Framleiðsludeild Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur frá útskrift verið að skrifa stuttmyndir, þætti og kvikmyndahandrit ásamt því leikstýra fjölda verkefna. Hann stundar nú nám í ritlist við Háskóla Íslands.
Vorið 2014 stofnuðu Þórunn og Natan Leikfélagið Hamfarir ásamt Dóru Lenu Christians og hafa þau komið að ýmsum verkum. Hingað til hefur Hamfarir aðallega verið á bak við verkefni í kvikmyndabransanum en er nú að teygja sig meira inn í leikhúsin.
Frumsýning verður í Tjarnarbíói 21. febrúar kl. 20:30.
AÐSTANDENDUR
Handrit
Natan Jónsson
Þórunn Guðlaugs
Leikstjórn
Natan Jónsson
Leikur
Þórunn Guðlaugs
Ársæll Níelsson
Aðalsteinn Oddsson
Vídeó & Grafík
Frímann Kjerúlf Björnsson
Siggeir Magnús Hafssteinsson aka Sig Vicious
Tæknimeistari
Kristinn Ágústsson
Tónlist
Einar Sv. Tryggvason
Búningahönnun
Ella Reynisdóttir
Förðun
Þórdís Hrund Þórðardóttir
Markaðssetning
Jenný Lára Arnórsdóttir og Oddur Elíasson
SÝNINGARTÍMAR
21. janúar, kl. 20:30
24. janúar, kl. 20:30
28. janúar, kl. 20:30
31. janúar, kl. 20:30