Skagaleikflokkurinn frumsýnir Sölku Völku eftir skáldsögu Halldórs Laxness miðvikudaginn 4. apríl.
Leikstjórn er í höndum Ingu Bjarnason sem vann leikgerð verksins í samvinnu við leikhópinn. Leikgerðin byggir á leikgerð Hilmars Jónssonar annarsvegar og Stefáns Baldurssonar og Þorsteins Gunnarssonar hinsvegar. Í þessari leikgerð er meira lagt upp úr lífi Sölku Völku en í hinum tveimur.
Sýningar verða í gamla Arctic-húsinu við Vesturgötu á Akranesi og það er vel við hæfi að setja Sölku Völku upp í gömlu fiskvinnsluhúsi, enda á sagan sér stað í litlu sjávarþorpi þar sem lífið er saltfiskur. Skagaleikflokkurinn hefur staðið í ströngu við að gera nýtt húsnæði sýningarhæft, en þetta er í annað sinn á einu ári að félagið þarf að koma upp sýningaraðstöðu.
Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður hannar leikmynd og Smári Jónsson er smiður ásamt því að leika í sýningunni. Þá er tónlist í höndum Fanneyjar Karlsdóttur sem verður á sviðinu allan tímann með nikkuna. Lýsingu sér Friðþjófur Þorsteinsson um.
Í helstu hlutverkum eru Þórdís Ingibjartsdóttir sem Salka, Guðleifur Rafn Einarsson sem Arnaldur, Sigtryggur Karlsson sem leikur Steinþór og Guðbjörg Árnadóttir sem leikur Sigurlínu.
Næstu sýningar verða eftir páska, 11. og 12. apríl.
{mos_fb_discuss:2}