Kunngert verður um vinningshafa í leikritunarsamkeppni Borgarleikhússins og Spron “Sakamál á svið” fimmtudaginn 2.nóvember kl.18 í forsal Borgarleikhússins.

Ríflega 30 verk bárust í samkeppnina en sex höfundar voru valdir til að fullvinna hugmyndir sínar að sakamálaverkunum og fengu til þess fjóra mánuði.
 
Nefnd,  skipuð Bjarna Jónssyni leikskáldi, Guðjóni Pedersen leikhússtjóra, Jóhannesi Helgasyni menningarfulltrúa Spron, Jórunni Sigurðardóttur útvarpskonu og Steinunnar Knútsdóttur listræns ráðunauts Borgarleikhússins, hefur komist að niðurstöðu um þrjú verk sem hljóta vinning.
 
Vinningsverkið fer á fjalir  Borgarleikhússins á næsta leikári og útvarpsleikhúsið tekur annað verk til flutnings í útvarpsleikhúsinu, hin fjögur verkin verða leiklesin í Borgarleikhúsinu  sunnudagana 5., 12., 19. og 26. nóvember kl.20 og eru allir velkomnir á lestrana.
 
Útvarpsleikhúsið mun í samstarfi við Borgarleikhúsið taka upp lestrana og gefa þá út á podcast en það er frí niðurhölun af veraldarvefnum beint á mp3 spilara.
 
Höfundar verkanna sex eru Guðmundur Brynjólfsson leikhúsfræðingur, Guðmundur Kr. Oddsson leikskáld og nemi, mæðginin Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður og Jónína Leósdóttir leikskáld, Jón Hallur Stefánsson rithöfundur og útvarpsmaður, Snæbjörn Brynjarsson leiklistarnemi og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachman leikskáld.