Leiklistarhópur unglingadeildar Dalvíkurskóla frumsýnir nýtt leikverk föstudaginn 5. nóvember í Ungó. Nefnist það Saga hússins… og er eftir Arnar Símonarson og leikhópinn. Dalvíkurskóli og Leikfélag Dalvíkur eru nú enn og aftur í samstarfi í tengslum við leiklistarvinnu með unglingum í Dalvíkurbyggð. Er þetta í sjötta sinn sem farið er í samstarf af þessu tagi. LD leggur fram húsnæði til afnota í 6 vikur fyrir þessa vinnu, endurgjaldslaust og félagsmenn, auk foreldra nemenda aðstoða auk þess varðandi búninga, leikmuni og fleira.
Leiklist er kennd sem valgrein í 8.,9. og 10. bekk í Dalvíkurskóla og hvorki fleiri né færri 28 nemendur sækja þessa faggrein í vetur! Alls koma að uppfærslunni að þessu sinni 36 ungmenni. Leiðbeinandi leikhópsins og leikstjóri uppfærslunnar er Arnar Símonarson, kennari og samfélagsþjálfi. Æft er síðdegis og á kvöldin alla virka daga. Arnar segir að verkið sem slíkt sé fjörugt með fullt af skemmtilegum augnablikum, en það er unnið út frá skapandi hugmyndavinnu. „Í miklu rigningarveðri koma ung hjón að skoða hús. Þau hitta fyrir gamlan mann sem segir þeim sögu þess. Og margt skrýtið og skondið gerist.“
Kristján Guðmundsson og Hans Friðrik Hilarius og Dagur Halldórsson sjá um ljósavinnu, Aron Óskarsson sér um hljóð og Guðný Ólafsdóttir hannar leikskrá. Umsjón með miðasölu er í höndum Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttir. Áætlaðar eru 8 sýningar á verkinu.
Miðapantanir í síma 865 3158
{mos_fb_discuss:2}