Á laugardaginn verður fluttur á rás 1 útvarpsþáttur um útgáfu Sögu Bandalagsins sem áformað er að komi út í vor. Þátturinn er á dagskrá á laugardaginn, 8. mars, klukkan 15.20 og verður endurfluttur föstudagskvöldið 14. mars. Þáttagerð annaðist fyrrverandi starfsmaður Bandalagsins, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.

Í þættinum er m.a. rætt við Bjarna Guðmarsson, söguritara, og Þorgeir Tryggvason, formann bandalagsins og sögunefndarmann, auk þess sem lesnir eru kaflar úr handriti bókarinnar. Þátturinn er hluti af þáttaröðinni Brot úr íslenskri menningarsögu sem er unnin í samstarfi við sagnfræðiskor Háskóla Íslands undir handleiðslu Ólínu Þorvarðardóttur.