Dagana 31. júlí til 5. ágúst fer fram leiklistarhátíð Norður-evrópsku áhugaleikhússamtakanna, NEATA, í Sønderborg í Danmörku. Fulltrúi Íslands á hátíðinni verður Hugleikur með sýninguna Sá glataði í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og er sú sýning opnunarsýning hátíðarinnar. Hátíðin stendur yfir í 5 daga og munu þar um 200 manns frá Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og víðar frá Evrópu sýna sitt og sjá annarra.

Alls verða 12 leiksýningar á hátíðinni en einnig verða haldnar 3 leiksmiðjur og gagnrýnendur munu fjalla um allar sýningar hátíðarinnar. NEATA-hátíðir eru haldnar annað hvert ár og róterar það á milli aðildarlanda hvar hún er haldin í hvert sinn. Síðasta NEATA-hátíð var haldin á Akureyri árið 2010. Hátíðin í ár er skipulögð af dönsku áhugaleikhússamtökunum (DATS) í samvinnu við bæjarfélagið Sønderborg. Verndari hátíðarinnar er Marie prinsessa.