Útvarpsleikhúsið – RÚV hlýtur tilnefningu fyrir DJÚPIÐ eftir Jón Atla Jónasson til evrópsku ljósvakaverðlaunanna, PRIX-EUROPA 2011, í flokki útvarpsleikrita. Hátíðin er nú haldin í 25. skipti í Berlín dagana 22.-29. október næstkomandi. Keppt er um besta efnið í Evrópu bæði í útvarpi og sjónvarpi, í hinum ýmsu flokkum. Alls voru 159 útvarpsverk frá 35 löndum send í keppnina sem útvarpsefni ársins.
DJÚPIÐ keppir um verðlaunin sem besta útvarpsverkið í flokki stakra útvarpsleikrita, en eingöngu voru valin 22 verk í þá keppni, af þeim sem send voru inn.
Síðan mun fjölskipuð dómnefnd vinna frá morgni til kvölds frá sunnudeginum 23. október fram á föstudagskvöld 28. október, þar sem hvert og eitt verk er metið, rætt og síðan greidd atkvæði í leynilegri atkvæðagreiðslu.
Laugardagskvöldið, 29. október, fer verðlaunahátíðin fram og þá fyrst verður opinberað hverjir hljóta verðlaun í hinum ýmsu flokkum útvarps- og sjónvarpsefnis.
Höfundur og leikstjóri DJÚPSINS er Jón Atli Jónasson, Ingvar E. Sigurðsson leikur, hljóðmynd eftir Hilmar Örn Hilmarsson og hljóðvinnslu annaðist Einar Sigurðsson.
16. júní sl. hlaut DJÚPIÐ Grímuna sem útvarpsverk ársins 2011
17. Júní sl. hlaut DJÚPIÐ Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin 2011