ImageLeikfélag Selfoss frumsýnir þann 10. mars í Leikhúsinu við Sigtún, leikritið Þuríði og Kambsránið, nýtt verk eftir formann félagsins Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson. Verkið fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um eitt þekktasta sakamál 19. aldarinnar, Kambsránið. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson.

Leikritið segir frá hinu fræga Kambsráni í Flóa árið 1827 og hvernig Þuríður formaður Einarsdóttir átti sinn þátt í rannsókn málsins. Ránið að Kambi var eitt umfangsmesta sakamál 19. aldar á Íslandi og þáttur Þuríðar formanns á Stokkseyri í lausn málsins nokkuð einstakur auk þess sem sakborningarnir tengdust fjölmörgum Sunnlendingum ættarböndum og gera auðvitað enn. Og eins og margir vita þá var hún Þuríður þessi mikil baráttukona í hörðum karlaheimi.

Sigurgeir Hilmar hefir nú samið leikrit sem byggt er að mestu á bók Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi um málið. Jón Stefán Kristjánsson leikstjóri og leikhópurinn hafa svo þróað verkið enn frekar. Með hlutverk Þuríðar fer Hilda Pálmadóttir en Rúnar Hjálmarsson leikur Sigurð Gottvinsson. Ekkert hefir verið til sparað til að gera þessa sýningu sem best úr garði og er það því von leikfélaga á Selfossi að Sunnlendingar og aðrir flykkist í leikhúsið til að sjá þetta leikrit um einstakan kvenskörung og afdrifaríkan glæp sem enn kitlar ímyndunarafl fólks á vorum tímum. Látið Þuríði og Kambsránið ekki framhjá ykkur fara.

Sýningin hefst kl. 20:30