ImageLeikritið um Ronju Ræningjadóttur verður frumsýnt á Stóra sviði  Borgarleikhússins næstkomandi sunnudag, 12. febrúar.  Sagan um Ronju er eftir Astrid Lindgren og segir frá ræningjadótturinni sem býr með foreldrum sínum og ræningjahópi í Matthíasarskógi. Leikstjóri er Sigrún Edda Björnsdóttir, sem fór með hlutverk Ronju þegar leikritið var síðast sýnt í Borgarleikhúsinu, fyrir tólf árum síðan.

Í skóginum kynnist Ronja Birki, syni annars ræningjaforingja og erkióvinar Matthíasar, og með þeim tekst djúp vinátta, sem fordæmd er af foreldrum þeirra. Saman flýja þau því að heiman, hafast við í Bjarnarhelli og glíma við rassálfa, grádverga, skógarnornir og aðrar furðuverur. Þetta er saga um vináttu og hugrekki en þó fyrst og fremst kærleika.
 
Image Arnbjörg Hlíf Valsdóttir leikur Ronju og Friðrik Friðriksson leikur vin hennar Birki Borkason. Foreldra Ronju, þau Matthías og Lovísu, leika Þórhallur Sigurðsson (Laddi) og Sóley Elíasdóttir. Eggert Þorleifsson leikur öldunginn Skalla-Pétur. Með önnur hlutverk fara: Björn Ingi Hilmarsson, Davíð Guðbrandsson, Ellert A. Ingimundarson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hildigunnur Þráinsdóttir, Hinrik Þór Svavarsson, Kjartan Bjargmundsson, Oddur Bjarni Þorkelsson, Orri Huginn Ágústsson, Tryggvi Gunnarsson, Valur Freyr Einarsson og Þór Tulinius. Auk þeirra taka 10 börn þátt í sýningunni sem skipta með sér 5 hlutverkum, einnig koma við sögu fjöldinn allur af rassálfum, skógarnornum og öðrum furðuverum.

Tónlist er fyrirferðamikil í leikritinu, og hún er eftir danska tónlistarmanninn Sebastian, en tónlistarstjóri er Karl Olgeirsson. Leikmynd og búninga hannar Sigurjón Jóhannsson og Bernd Ogrodnik býr til brúður. Hreyfingar og dans er í höndum Ástrósar Gunnarsdóttur, Halldór Örn Óskarsson hannar lýsingu. Hljóðmynd annast Jakob Tryggvason og leikgervi Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Leikgerð semur Annina Enckell og þýðandi er Þorleifur Hauksson.