Leikfélag Sauðárkóks frumsýnir sunnudaginn 14. nóvember, barnaleikritið Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur. Sýnt er  í Bifröst á Sauðárkróki .

„Ronja er eitt af mörgum frábæru leikverkum Astridar en hefur kannski ekki náð alveg sama flugi og önnur eins og t.d. Lína Langsokkur og Emil í Kattholti, sem mér finnst persónulega skrýtið því Ronja er bæði fjörugt og fallegt leikverk og það sama má segja um tónlistina í verkinu,“ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður LS.

Ronja ræningjadóttir fjallar um dóttur ræningjaforingjans Mattíasar og hvað gerist þegar hún tekur upp á því að vingast við Birki, son Borka erkióvinarins. „Við kynnumst þeim Ronju og Birki og þeirra ævintýrum, við kynnumst skemmtilegum ræningjaflokkum ásamt nornum, rassálfum, grádvergum og hermönnum en sagan segir okkur hversu mikilvæg vináttan er í blíðu og stríðu og einnig að það er allt miklu skemmtilegra þegar allir eru sáttir og allt leikur í lyndi.“

Alls koma um 60. manns að sýningunni þar af eru  24 leikarar í 33.hlutverkum.  Æfingatímabilið hefur gengið vel og erum við hjá LS full tilhlökkunar að sýna ykkur uppskeruna.

Leikfélag Sauðárkróks var formlega stofnað 13. apríl 1888 og starfaði í nokkur ár en var var endurvakið 9. janúar 1941 og fögnum við því 80. ára afmæli í ár.   Við byrjuðum afmælisveisluna með því að heimsfrumsýna Á frívaktinni eftir Pétur Guðjónsson sl. vor og nú heldur veislan áfram með Ronju

Í plakati er hægt að sjá alla sýningatíma á leikritinu og mælum við að sjálfsögðu með því að skella sér í leikhús – miðapantanir eru í síma 849 9434 og kostar miðinn 3500 kr. Hópar, eldri borgarar, öryrkjar og grunn- og leikskólabörn fá miðann á 3000 kr. Frábæra skemmtun sem hentar allri fjölskyldunni.