„Guðrún vaknar í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla með því að láta vita að hún sé á lífi.“
Leikhópur sem þær skipa Eyrún Ósk Jónsdóttir og Hildur Kristín Thorstensen sýnir einleikinn Requiem. Leikari og höfundur er Eyrún Ósk Jónsdóttir og leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen. Tónlist og leikhljóð samdi Ólafur Torfason.
Sýningar verða laugardaginn 31. ágúst kl. 17:00 og 20:00 og sunnudaginn 1. sept kl. 18:00. Sýnt er í Lífsgæðasetrinu St. Jósepsspítala í Hafnarfirði, gengið inn frá Hringbraut. Miðaverð er 3000 kr og miðapantanir eru á jofridarstadir@gmail.com
Eyrún Ósk Jónsdóttir er útskrifaður leikari frá Rose Bruford College of speech and drama. Hún er rithöfundur og skáld og vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016. Eyrún á baki feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hún hefur sent frá sér fjórar skáldsögur, eina myndskreytta barnabók og fjórar ljóðabækur. Hún hefur skrifað fjölda leikrita sem hafa verið sett upp í leikhúsum hérlendis og erlendis auk þess sem hún hefur skrifað kvikmyndahandrit, greinar, fyrirlestra og útvarpserindi. Hún hefur leikið bæði í leikhúsum og kvikmyndum.
Hildur Kristín Thorstensen útskrifaðist af listabraut frá Fjölbrautarskólanum í Garðbæ árið 2014 og fór því næst til Huittinen í Finnlandi í sviðslistarnám við Länsi-Suomen opisto. Hún kláraði 7. stigið í klassískri tónlist og söng við Söngskólann í Reykjavík árið 2017 og fór síðan í leiklistarnám við Cours Florent í París.
Hildur Kristín stefnir á leiklistarnám í London í haust.
Árið 2017 gaf hún út fyrstu ljóðabókina sína „Hugljúfar minningar“ og stefnir á að gefa út barna og ungmenna bókina „Töfraloftbelgurinn“ núna í sumar. Requiem er annað leikverkið sem Hildur Kristín leikstýrir.