Óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson snýr aftur á svið Íslensku óperunnar í desember, eftir mikla sigurgöngu síðastliðið vor. Alls urðu sýningar á óperunni þrettán talsins í Eldborg í Hörpu og komust færri að en vildu. Sýningin hlaut tíu tilnefningar til Grímunnar og var í kjölfarið valin Sýning ársins 2014, auk þess sem Gunnar Þórðarson hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónhöfundur ársins fyrir verkið á þessu ári.

Ragnheiður er sannkölluð ástar- og örlagasaga sem segja má að hafi snert dýpri streng í brjósti þjóðarinnar en flestir aðrir atburðir úr Íslandssögunni. Alls taka hátt í eitt hundrað listamenn þátt í uppfærslunni og skartar sýningin mörgum af okkar fremstu söngvurum í aðalhlutverkum. Þóra Einarsdóttir syngur titilhlutverkið, Elmar Gilbertsson er Daði Halldórsson og Viðar Gunnarsson syngur hlutverk Brynjólfs biskups. Hljómsveitarstjóri er Petri Sakari og leikstjóri er Stefán Baldursson.

Sýningarnar nú verða tvær, laugardaginn 27. desember og sunnudaginn 28. desember og hófst miðasala í byrjun vikunnar. Miðum á sýningarnar fer nú óðum fækkandi.