Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner fjallar um hvernig samfélag getur haft áhrif á alla til góðs, líka ræningja. Allir vinna sín verk í ró og næði og standa saman þegar á reynir.
Það þarf þorp til að ala upp barn og það þarf leikfélag til að ala upp næstu kynslóðir leikhúsáhugafólks, þátttakendur sem og áhorfendur. Það er það sem Leikfélag Austur-Eyfellinga er að gera með því að setja upp þessa umfangsmiklu sýningu sem Kardimommubærinn er. Miðað við fjöldann sem tekur þátt í sýningunni á einn eða annan hátt og viðtökur áhorfenda má gera ráð fyrir að uppbyggingingarstarfið muni bera góða uppskeru sem auðgað getur leiklistarlíf héraðsins til langframa.
Leikstjóri sýningarinnar er Sigurður Hróarsson, bókmennta- og leikhúsfræðingur og forstöðumaður Sögusetursins á Hvolsvelli, en hátt í 60 manns koma að sýningunni. Leikhópurinn samanstendur af fólki á aldrinum 10 til 70 ára. Samkvæmt upplýsingum í leiksskrá er sýningin afrakstur af leiklistarnámi barna á grunnskólaaldri og stækkunar á starfssvæði félagsins. Hópurinn stendur sig vel og fá ungir leikarar að spreyta sig í ýmsum hlutverkum. Leikgleðin var mikil og allir hópurinn vel samhæfður í hópatriðum og söngatriðum sem eru mörg í þessu verki. Allur texti barst vel til áhorfenda og ber að hrósa ungum leikurum fyrir skýrna og góðan framburð og söng.
Af ungum leikurum verður þar sérstaklega að nefna þá Odd Helga Ólafsson og Sigurpál Jónar Sigurðarson sem léku ræningjana Jesper og Kasper af krafti, að ónefndum leikstjóranum Sigurði Hróarssyni sem bregður sér í hlutverk ræningjans Jónatans. Einnig vakti syngjandi úlfaldi mikla lukku, sem Valborg Ólafsdóttir lék, en auk úlfaldans brá hún sér í hlutverk syngjandi dýrasala og Frú Bastían.
Mikil vinna hefur verið lögð í alla umgjörð sýningarinnar, leikmyndin var hugvitsamlega hönnuð þar sem leikrýmið var vel nýtt með miðlægu hringsviði til að sýna mismunandi vistarverur eins og ræningjabæli, fangelsi og bakarí. Turninn hans Tobíasar, aðalgata Kardimommubæjar og sporvagninn litu út eins og þau hefðu sprottið beint upp úr teikningum Egners sjálfs. Tónlistin var skemmtilega útfærð með lúðrablæstri og með leikskrá fylgdi söngskrá með textum þannig að áhorfendur höfðu færi á að taka undir að vild, enda margir sem þekkja söngvana í þessu þekkta verki.
Fimm ára meðreiðarsveinn undirritaðrar hafði mjög gaman að sýningunni og fannst ræningjarnir bestir, en Soffía frænka helst til frek. Hann fann til mikillar samkenndar með þeim Kasper, Jesper og Jónatan og vorkenndi þeim yfirgang Soffíu og tilætlunarsemi þegar kom að tiltekt og þvottastandi. Sýningin hélt athygli unga mannsins allan tímann jafnvel þótt sýningin teygðist aðeins á þriðja tímann og ófáar hláturrokurnar sem frá honum komu á meðan á sýningu stóð.
Guðfinna Gunnarsdóttir