Í enn eitt skiptið skrapp ég á söngleik hjá framhaldsskólanemum. Ég fór fyrr í vetur á einn slíkan hjá Versló en í þetta skiptið hjá Fjölbraut í Breiðholti. Í þetta skiptið skemmti ég mér þó betur hjá breiðhyltingunum. Þeir voru með svo helvíti flotta músík. Queen rokkar!! Og eins og hjá Versló eru svaðalega fínir söngvarar og dansarar í hópnum og stundum var bara eins og Freddy væri mættur á svæðið (blessuð sé minning hans). En því miður eins og í Versló sýningunni fyrr í vetur voru brotalamirnar þær sömu. Slæmt handrit og slök leikstjórn.

Maður á kannski ekki að gera of miklar kröfur til handrita sem eru gerð til að tengja saman leik og söngnúmer. Mér finnst þó lágmarkskrafa að þau þjóni þó þeim tilgangi og séu skemmtileg líka eða með nokkrum góðum bröndurum allavega. Gott dæmi um svoleiðis handrit var Made in Usa Jóns Gnarr hjá Versló í fyrra. Handritið að Rokkið lifir gerir það ekki. Þetta er frekar heimskuleg framtíðarsaga með vandræðalegum neðanbeltisbröndurum og söngnúmerunum er síðan flestum hrúgað inn án nokkurrar sérstakrar ástæðu. Leikstjórn Guðmundar Rúnar Kristjánssonar gerir síðan illt verra. Það getur vel verið að Austurbæjarbíó sé stórt hús og þarfnist sterkrar raddbeitingar hjá leikurum en fyrr má aldeilis fyrrvera. Það var sorglegt að sjá þennan stóra hóp efnilegra leikara (já það eru margir fínir leikarar í hópnum) spígspora um sviðið og öskra textann sinn. Hversvegna var ekki sviðið bara magnað upp og leikurnum leyft að leika textann af einlægni og eðlilegum raddstyrk í staðinn fyrir að láta þau leika á háa céinu allan tímann? Þetta þyddi náttúrlega að helmingur textans fór forgörðum og þessum hæfileikakrökkum úr FB gáfust fá tækifæri til að sýna hæfileika sína. Ég ætlaði að nefna nokkur nöfn en því miður átti ég erfitt með að þekkja hver var hver í leikskránni en það má nefna unga kærustuparið, drottningarnar, liðið í Bóhem og svarta hjálparkokkinn en þau stóðu öll fyrir sínu.

Þrátt fyrir þessar brotalamir leiddist mér ekki á sýningunni enda gamall og genginn Queen aðdáandi og fyrir frábæran flutning á gömlu standördunum fær FB tvær stjörnur hjá mér.

Lárus Vilhjálmsson