Íslenskt áhugaleikhús fær hrós
Í Morgunblaðinu 12. júlí síðastliðinn er viðtal við Danute Vaigauskaite sem var sérstakur heiðursgestur leiklistarhátíðarinna Leikum núna! Hún tjáir þar m.a. skoðun sína á íslensku áhugaleikhúsi sem hún segir að sé "… einstaklega gott og í háum gæðaflokki".
Á leiklistarhátíðinni Leikum núna! sem fram fór á Akureyri í liðnum mánuði var sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar, forseti NEATA*, Danute Vaigauskaite en hún starfar jafnframt sem forseti leikstjórnardeildar Háskólans í Klaipeda. Í Morgunblaðinu í dag, mánudag 4. júlí er viðtal sem Silja Björk Huldudóttir tók við hana meðan á hátíðinni stóð.
Danute lýsir þar m.a. hrifningu sinni á íslensku áhugaleikhúsi:
„Áður en ég kom hingað til lands hafði ég séð þrjár ólíkar uppfærslur Hugleiks og eina uppfærslu Leikfélags Kópavogs á alþjóðlegum leiklistarhátíðum erlendis, og litist afar vel á enda um að ræða sýningar í mjög háum gæðaflokki og fagmannlega unnar, bæði m.t.t. leiks og leikstjórnar. Eftir að hafa séð þessar fjórar uppfærslur lék mér eðlilega forvitni á að vita hvort allt áhugaleikhús hérlendis væri í sama gæðaflokki."
Danute heldur síðan áfram:
„Núna undir lok hátíðarinnar get ég sannarlega fulllyrt að íslenskt áhugaleikhús er einstaklega gott og í háum gæðaflokki. Greinilegt er að metnaður manna er mikill, afstaðan í vinnubrögðum er afar fagmannleg […]. Miðað við hvað áhugaleikhús ykkar er gott og á háu plani á ég erfitt með að ímynda mér að atvinnuleikhús ykkar geti verið betra!“
Danute minnist sérstaklega á Stundarfrið Leikfélags Hörgdæla sem dæmi um sýningu sem hafi komið sér á óvart og segir að "…raunsæjar eða natúralískar uppfærslur á borð við þessa þekkjast hreinlega ekki lengur í litháísku leikhúsi. Satt að segja efast ég um að við Litháar gætum sett upp svona vel leikna raunsæja uppfærslu því þetta er leikhúshefð sem við höfum ekki notað eða hlúð að í tæpa öld."
Þá nefnir hún Memento Mori Hugleiks og Leikfélags Kópavogs sem dæmi sýningu sem "… kemst mjög nálægt því sem verið er að gera í litháísku leikhúsi um þessar mundir þar sem Ágústa Skúladóttir leikstjóri notar, líkt og starfsfélagar hennar ytra, öll meðul leikhússins til að miðla sögu…“.
Lesendur eru hvattir til að lesa viðtalið í heild enda er það góður vitnisburður um íslenskt áhugaleikhús.