Jón Ómar Erlingsson framkvæmdastjóri og Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri undirrituðu samstarfssamning á Stóra sviði Borgarleikhússins að viðstöddum leikurum og listrænum stjórnendum Kirsuberjagarðsins. Prentsmiðjan Oddi verður máttarstólpi Kirsuberjagarðsins, en aðrir máttarstólpar Borgarleikhússins eru Reykjavíkurborg, Valitor, VÍS, Íslandsbanki og Ölgerðin. Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hafa fyrirtækin í landinu staðið þétt við bakið á Borgarleikhúsinu og hafa komið inn í starfið af miklum krafti.

„Við erum hæstánægð að fá Odda til liðs við okkur sem máttarstólpa. Fyrirtækið er þekkt fyrir vandaða vinnu, á sér langa og merka sögu og er í stöðugri framþróun. Þetta eru eiginleikar sem tóna mjög vel við Kirsuberjagarðinn og Borgarleikhúsið í heild og við eigum því góða samleið”, segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins. Prentsmiðjan Oddi verður aðal samstarfsaðili Borgarleikhússins í tengslum Kirsuberjagarðinn.

Kirsuberjagarðurinn er síðasta og mest leikna leikrit Antons Tsjekhovs (1860– 1904). Verkið er af mörgum talið eitt besta leikverk allra tíma, angurvært stórvirki þar sem gaman og alvara vegast listilega á. Hilmir Snær Guðnason leikstýrir verkinu en hann hlaut Grímuverðlaun fyrir síðustu uppsetningu sína, Fjölskylduna, sem gekk tvo vetur fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu. Halla Gunnarsóttir hannar leikmynd og búninga en hún hlaut Grímuverðlaun fyrir leikmyndahönnun á síðasta leikári fyrir leikmynd sína í Strýhærða Pétri. Sigrún Edda Björnsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Rúnar Freyr Gíslason, Guðjón Davíð Karlsson eru í burðarhlutverkum í sýningunni.

Það er afar ánægjulegt að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hafa samstarfsfyrirtæki fyrri ára endurnýjað samstarfssamninga nú í haust og ný jafnframt bæst við. Stuðningur þessara fyrirtækja gera leikhúsinu kleift að bjóða upp á afar fjölbreytta dagskrá á því leikári sem nú er nýhafið. Leikárið fer afar vel af stað og uppselt á flestar sýningar langt fram í tímann. Þá heldur kortasala áfram að aukast umtalsvert og stefnir í að enn fleiri kort verði seld en í fyrra.

{mos_fb_discuss:3}