Laugardaginn 18. október klukkan 17:00 frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks  fjölskylduleikritið Pétur Pan eftir J.M. Barrie. Þýðinguna gerði Karl Ágúst Úlfsson og leikstjóri er Stefán Sturla Sigurjónsson. Sýnt er í Bifröst.

Það kannast flestir við Pétur Pan, strákinn sem neitar að verða fullorðinn og býr ásamt týndu drengjunum í Hvergilandi þar sem sjóræningjar, indjánar og hafmeyjar lifa saman í ósátt og sundurlindi. Nótt eina heimsækir Pétur systkinin Vöndu, Georg og Jón og tekur þau með sér til Hvergilands og þar með hefjast ævintýri þeirra og barátta við hinn grimma Kaptein Krók og sjórærningja hans.

Stefán Sturla Sigurjónsson er Sauðkrækingum að góðu kunnur enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann leikstýrir Leikfélagi Sauðárkróks. Síðast leikstýrði hann þar eigin verki, barnaleikritnu Alínu, sl. haust.

Miðasalan er hafin hjá Herdísi í Kompunni frá 11-18 virka daga og svo verður tekið við símgreiðslum í síma 849-9434 á kvöldin.