Laugardaginn 4. mars verður Pétur Gautur eftir Henrik Ibsen frumsýndur í Þjóðleikhúsinu. Leikstjóri er Baltasar Kormákur en með titilhlutverkið fer Björn Hlynur Haraldsson. Pétur Gautur er vígslusýning Kassans, sem er nýtt svið í Þjóðleikhúsinu.
Pétur Gautur er eitt af meistarverkum Henriks Ibsens, snilldarlegur ljóðleikur sem aflaði skáldinu heimsfrægðar. Verkið kom fyrst út á bók árið 1867 en tæpum áratug síðar var það frumflutt og hefur reglulega verið sett upp í frægum uppsetningum í helstu leikhúsum heims síðan þá. Hin margbrotna titilpersóna verksins og knýjandi spurningar um það sem skiptir máli í lífinu og kjarna mannsins hafa heltekið jafnt leikhúslistafólk sem áhorfendur í gegnum tíðina. Mannlegt innsæi höfundarins nýtur sín hér til fulls og ímyndunarafl og hugmyndaauðgi hans fara á óviðjafnanlegt flug, í verki sem er leiftrandi af húmor. Í sýningu Þjóðleikhússins nú verður sjónum beint að Pétri Gaut í nútímanum.
Leikstjóri sýningar Þjóðleikhússins er Baltasar Kormákur sem er áhorfendum að góðu kunnur sem leikari og leikstjóri, bæði í kvikmyndum og leikhúsi. Frumlegar og myndrænar leiksýningar hans, jafnt á klassískum verkum á borð við Hamlet og Draum á Jónsmessunótt, sem og nýrri verkum, hafa vakið mikla athygli. Nýlegasta uppsetning hans í Þjóðleikhúsinu, Þetta er allt að koma, hlaut Grímuna-Íslensku leiklistarverðlaunin 2003 sem besta leiksýning ársins. Gretar Reynisson, sem gerir leikmynd sýningarinnar á Pétri Gaut, hlaut jafnframt Grímuna fyrir Þetta er allt að koma.
Á þessu ári er hundrað ára ártíð Ibsens, og skáldsins er minnst með leiksýningum, hátíðahöldum og hvers kyns uppákomum víða um heim. Menntamálaráðuneyti Noregs skipuleggur meðal annars margvíslega viðburði á hinu svokallaða “Ibsen-ári 2006” en undir lok ársins verður sérstök hátíðarsýning á Pétri Gaut við Sfinxina í Giza í Egyptalandi. Nú í febrúar er einmitt hundrað og þrjátíu ára sýningarafmæli leikritsins, en Pétur Gautur var frumfluttur í Kristjaníuleikhúsinu þann 24. febrúar 1876. Þjóðleikhúsið heiðrar skáldið með nýrri sýningu á Pétri Gaut, og mun jafnframt standa fyrir dagskrá um verkið og Ibsen í samstarfi við norska sendiráðið í mars. Leikhúsið stendur einnig fyrir námskeiði fyrir almenning í tengslum við sýninguna á Pétri Gaut.
Með hlutverk Péturs Gauts fer Björn Hlynur Haraldsson sem þreytir nú frumraun sína í Þjóðleikhúsinu. Í öðrum hlutverkum eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Ólafur Darri Ólafsson.
Karl Ágúst Úlfsson hefur gert nýja þýðingu á verkinu, um lýsingu sér Páll Ragnarsson og Helga I. Stefánsdóttir gerir búninga. Sem fyrr segir er leikmynd í höndum Gretars Reynissonar og leikstjóri og höfundur leikgerðar er Baltasar Kormákur.