Leikfélgar Hornafjarðar æfir um þessar mundir leikritið Piltur og stúlka. Leikstjóri er Stefán Sturla og hefur hann unnið nýja leikgerð sem byggir á bók Jóns Thoroddsen.

18 manna hópur leikara æfa nú á fullu og er áætluð frumsýning 18. mars. Þetta er skemmtileg ástarsaga með ýmsum söngvum sem leikhópurinn hefur valið. Piltur og stúlka, var brautryðjendaskáldsaga eftir Jón Thoroddsen eldri. Hún er rómantísk og raunsönn saga sem gerist á 19. öld. Hún er oft talin fyrsta íslenska skáldsagan sem var gefin út á Íslandi, en kom hún út árið 1850.

Verkið er hugljúf og bráðskemmtileg saga af ástum Sigríðar og Indriða, sem kynnast börn að aldri en njótast eigi fyrr en i lokin, eftir allskyns misskilning og klæki óprúttinna einstaklinga, ekki síst móður hennar. Þarna birtast magnaðar aukapersónur á borð við Gróu á Leiti og Bárð á Búrfelli, sem Íslendingar tóku snemma ástfóstri við og nota enn sem viðmið um æskilegt eða óæskilegt framferði og skapgerð.

Umgjörð verksins verður öllu nútímalegri en Jón Thoroddsen skrifar og verða galdrar leikhússins nýttir, en hin magnaði ritstíll höfundar látinn halda sér.