Leikfélag Kópavogs
Gutti og félagar eftir Örn Alexandersson byggt á kvæðum Stefáns Jónssonar
Leikstjóri: Örn Alexandersson

„Gutti aldrei gegnir þessu, grettir sig og bara hlær…“. Þessar línur þekkja líklega allir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára. Gutti er einn ódælasti drengurinn í íslenskri bókmenntasögu og nú má fylgjast með uppátækjum hans á fjölunum hjá Leikfélagi Kópavogs. Örn Alexandersson hefur þar sett saman barnaleikrit með söngvum, Gutti og félagar, byggt á Guttavísum og fleiri kvæðum eftir Stefán Jónsson.

Í leikskránni er spurt hvort að Gutti hafi verið dæmdur of hart í gegnum tíðina. Miðað við uppsetninguna í Kópavogi má segja að svo sé, því þar er Gutti, leikinn af Bjarna Daníelssyni, ósköp góður en uppátækjasamur strákur sem gleymir sér stundum í hita leiksins. Ég saknaði þess að minnsta kosti að sjá ekki Gutta gretta sig og hlæja framan í mömmu sína.

Höfundurinn og leikstjórinn, hinn fjölhæfi Örn Alexandersson, hefur sýnt það áður með skrifum sínum að hann kann að bregða penna á blað, t.d. með hinu stórskemmtilega barnaleikriti um Rúa og Stúa. Það er virðingarvert að koma þessum kvæðum og persónum Stefáns Jónssonar saman í eina sýningu, söguþráðurinn er einfaldur en Örn tekur víða á sprett og tengir verk Stefáns skemmtilega saman. Þá var eins skemmtilegt uppbrot í sýningunni þegar Askur Kristjánsson fór á flug með texta Laxness og Káins.

Leikararnir standa sig allir með prýði. Gutti er í góðum höndum Bjarna og sömu sögu má segja um vinahópinn þar sem þau Hildur Tryggvadóttir, Arnfinnur Daníelsson og Þórarinn Heiðar Harðarson búa öll til skýra karaktera. Sögumennirnir Helga Björk Pálsdóttir og Askur Kristjánsson keyra sýninguna áfram af miklu öryggi með góðum söng og Anna Margrét Pálsdóttir er sköruleg og skemmtileg Vala sem lætur engan valta yfir sig og hirtir hann Óla sinn skans reglulega. Ekki má heldur gleyma foreldrum Gutta sem eru í góðum höndum Önnu Bryndísar Einarsdóttur og Hauks Ingimarssonar. Söngurinn og minimalískur hljóðfæraleikur í sýningunni er í heildina mjög góður og lykilatriði er að textinn kemst vel til skila. Selma Rán Lima syngur Aravísur sérstaklega fallega. Við tónlistina bætist svo prýðileg hljóðmynd Jóseps Gíslasonar.

Sviðsmyndin er einföld á gólfinu í þessum litla sal í Leikhúsinu í Kópavogi. Engu er ofaukið en rýmið er vel nýtt. Skúli Rúnar Hilmarsson hannar lýsinguna og nær að skapa réttu stemmninguna bæði í draumi og veruleika. Leikstjórinn heldur utan um þetta alltsaman og heildarsvipur sýningarinnar er góður en þó fannst mér vanta að skýrari línur væru lagðar í búningum, sem virtust lítið annað en samansafn af hinu og þessu úr búningageymslu félagsins.

Sex ára gagnrýnandi sem sat við hliðina á mér í salnum skemmti sér hið besta enda þekkti hún bæði Guttavísur og Aravísur og sitthvað fleira. Henni fannst leikritið skemmtilegt og hló eftir á mikið að prakkarastrikum Gutta og sérstaklega að óförum Óla skans. Vísurnar voru líka sungnar á leiðinni heim og fram á kvöld… og er þá ekki töluverðum árangri náð? Fólk ætti að fjölmenna í Leikhúsið í Kópavogi og kynna börnin fyrir verkum Stefáns Jónssonar.

Guðmundur Karl Sigurdórsson