29. mars næstkomandi heldur Tjarnarbíó, í samvinnu við Vinnsluna, glæsilega opnunarhátíð, þar sem listamenn munu sýna verk í hverju rými hússins, en þetta gamla leikhús leynir sko á sér! Hátíðin hefst kl. 19.00 en húsið opnar kl. 18.30.

Tjarnarbíó er ekki bara lítið leikhús við Tjörnina, heldur lifandi vettvangur sköpunar og miðstöð allra listforma, þar sem listir eru iðkaðar í hverju rými hússins, hvort sem það er stóri salurinn, tækniherbergið, kaffihúsið eða þröngir ranghalar þessa gamla húss. Hér blandast tónar, litir, leikur og myndir. Sköpunin ræður ríkjum.

Á síðustu vikum og mánuðum hefur stefna og starfsemi Tjarnarbíós verið skoðuð ofan í kjölinn og ýmsar breytingar hafa verið settar í gang. Þann 29. mars næstkomandi höldum við opnunarhátíð, þar sem við bjóðum öllum að koma og kynnast hinu nýja Tjarnarbíói.

Á einni kvöldstund getur þú upplifað margt af því áhugaverðasta í íslensku listalífi, en 24 listamenn og hópar sýna verk af öllum listformum:

Anna Fríða Giudice
Ásdís Sif Gunnarsdóttir
Bjartmar Þórðarsson
EinarIndra
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir og Steinunn Harðardóttir – Sparkle Poison
Inga Maren og Ásgeir Helgi
Jana María Guðmundsdóttir
Kristína Berman
Listahópurinn Vinnslan
Mar Cuervo
Maria Edit Antal
Nikhil Nathan Kirsh
Peter Pendergrass
Pétur Ben
Ragnheiður Maísól
Rán Jónsdóttir
Reykvélin
VaVaVoom Theatre & Bedroom Community – Wide Slumber
Sigurður Arent – Foreign Objectives
Spegilbrot
Steinunn Ketilsdóttir
Sylvía Dögg Halldórsdóttir – Lovetank
Háaloftið – Útundan
Una Furtiva

Frá Guðmundi Inga Þorvaldssyni, framkvæmdastjóra:
Opnunarhátíðin er yfirlýsing frá starfsfólki Tjarnarbíós og skapandi sviðslistafólks um það sem koma skal í leikhúsinu við Tjörnina. Það sem gerist í Tjarnarbíó er svo miklu stærra en við gætum nokkurn tímann afrekað hvert í sínu horni. Tjarnarbíó á að verða samfélag listamanna og alls áhugafólks um sköpun. Í því samtali verður til forsenda til sköpunar verka sem eru stærri, dýpri og mikilfenglegri en það sem við gætum nokkru sinni afrekað hvert í sínu horni. Í Tjarnarbíó er allt opið og mörkin milli listgreina og milli listarinnar og samfélagsins afmáð.

Á opnunarhátíðinni kynnum við ekki bara fyrir ykkur hvernig list verður til og hversu fjölbreytt og dásamleg hún getur verið. Við kynnum einnig fyrir þér kaffihúsið okkar og barinn sem við erum að opna. Þar munum við bjóða upp á dýrindis kaffi og með því ásamt áfengum veitingum sem við leggjum metnað í að verði eins og best gerist. En Kaffihúsið okkar verður svo miklu meira en það. Það verður hjarta hússins. Þar mun listafólk flesta daga vikunnar kynna fyrir gestum kaffihússins þau verkefni sem það er að vinna að þá stundina og bjóða upp á samtal um sköpunina. Með þeim hætti eignumst við öll hlutdeild í þeim samfélagsspegli sem list á að vera. Tjarnarbíó er okkar allra.

Miðasala er í fullum gangi á tjarnarbio.is/?id=869 og á midi.is/leikhus/1/8164.

Hér eru nákvæmari upplýsingar um þá listamenn sem koma fram.

Allskonar nánari upplýsingar á heimasíðu Tjarnarbíós.

Fylgist einnig með á heimasíðu Vinnslunar, og á Facebook-síðum Tjarnarbíós og Vinnslunar.