Á morgun, þriðjudaginn 5. janúar kl 12:45 verður opinn samlestur á Mamma mia í forsal Borgarleikhússins.  Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni.  Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.

Söngleikurinn Mamma mia verður frumsýndur 11. mars. Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir hópnum sem samanstendur af 14 leikurum og 10 dönsurum. Jón Ólafsson er tónlistarstjóri með 8 manna hljómsveit með sér. Borgarleikhúsið fær einnig að njóta snilli danshöfundarins Lee Proud eitt árið enn. Leikmynd er í höndum Ilmar Stefánsdóttur og Filippía Elísdóttir gerir búninga.

Nánari upplýsingar um sýninguna má sjá hér http://www.borgarleikhus.is/syningar/mamma-mia/