Nú gefst áhugafólki um leikhús tækifæri til að koma á opinn samlestur í Borgarleikhúsinu. Verkið Dúkkuheimili eftir Henrik Ibsen verður leiklesið mánudagsmorguninn 3. nóvember kl 10. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni. Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.

Nóra er ein þekktasta kvenhetja leiklistarinnar. Hún býr á venjulegu heimili ásamt eiginmanni sínum Þorvaldi og þremur börnum. En Nóra á sér leyndarmál sem enginn má komast að, allra síst Þorvaldur. Í augum hans er álit samfélagsins á honum og fjölskyldu hans mikilvægara en allt annað. Komist upp um leyndarmálið gæti það á svipstundu rústað hamingju fjölskyldunnar. Nóra stendur frammi fyrir erfiðu vali, að þrauka áfram í þrengslum dúkkuheimilisins eða rjúfa múrinn og yfirgefa eiginmann og börn. Jólasýning Borgarleikhússins í ár, Dúkkuheimili, er stórbrotið leikverk sem allir núverandi og fyrrverandi makar ættu að sjá og ekki síður þeir sem hyggja á sambúð – eða hafna henni.

Henrik Ibsen skrifaði Dúkkuheimili árið 1879 og tryggði verkið honum ekki einungis heimsfrægð heldur stendur það enn í dag sem helsta verk leiklistarsögunnar sem flettir ofan af stórri lífslygi. Með glöggskyggni sinni og næmi fyrir mannlegum tilfinningum skoðar hann líf í hjónabandi, grundvöll þess og innihald.

Þýðing og dramatúrgía: Hrafnhildur Hagalín
Leikstjóri: Harpa Arnardóttir
Tónlist: Margrét Kristín Blöndal
Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikarar: Unnur Ösp Stefánsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Þorsteinn Bachmann, Valur Freyr Einarsson og fl.