thjodleikhus_logo.gifDagana 7.-9. febrúar er Vetrarhátíð í Reykjavík og Þjóðleikhúsið lætur ekki sitt eftir liggja. Í tilefni Vetrarhátíðar bjóðum við upp á notalegar stundir, fríar sýningar og almennt fjör á galopnum degi. Kynnið ykkur dagskrána og takið frá tíma í leikhúsinu. Næstkomandi laugardag verður opið hús í aðalbyggingu Þjóðleikhússins við Hverfisgötu þar sem fjölbreytt skemmtun verður í boði fyrir alla fjölskylduna milli kl. 13-16.

Í Leikhúskjallaranum munu leikarar úr ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðunni troða upp og lesa ævintýrin sín. Rauðhetta, Gréta og Mjallhvít fara þar fremstar í flokki en yngstu gestirnir munu án efa hafa gaman að því að hlýða á viðburðaríkar sögur þeirra. Lestur þeirra verður endurtekinn þrisvar sinnum yfir daginn auk þess sem þessar ævintýralegu stúlkur munu líka taka lagið. Áhugasamir gestir geta fengið að láta smella af sér mynd með fleiri fígúrum úr Skilaboðaskjóðunni og reynt á lukkuna í skemmtilegum leik.
 
 Á Stóra sviðinu hefst dagskráin á ljóðalestri. Leikarinn og þýðandinn Hjalti Rögnvaldsson mun lesa valin ljóð – úr ýmsum áttum og frá öllum tímum og er fólki boðið að tylla sér inn í salinn. Að því loknu, eða kl. 14.15 mun leikhópurinn sem þessa dagana vinnur að uppsetningu á leikritinu Sólarferð eftir Guðmund Steinsson koma sér fyrir á sviðinu. Leikstjórinn Benedikt Erlingsson stýrir uppákomu þar sem áhorfendur fá að skyggnast inn á „æfingu“ verksins sem frumsýnt verður þann 15. febrúar nk.
 
Sveinn Einarsson, fyrrum Þjóðleikhússtjóri, mun leiða gesti um Þjóðleikhúsbygginguna og uppfræða um listaverkin sem þar er að finna. Sveinn er vitanlega öllum hnútum kunnugur í byggingunni og hafsjór af fróðleik um sögu hennar og fólksins sem henni tengjast. Þess má geta að um þessar mundir prýða ljósmyndir frá fyrstu tíu starfsárum hússins veggi hússins auk annarra listaverka sem er þar jafnan að finna.
 
Gunnar Helgason leikstjóri söngleiksins Ástin er diskó, lífið er pönk mun ásamt Frosta Friðrikssyni leikmyndahönnuði kynna verkið fyrir gestum og gangandi. Gestir fá að kíkja á módel sviðsmyndarinnar, heyra tóndæmi og höfundurinn Hallgrímur Helgason mun lesa nokkra dramatíska texta, þar á meðal úr söngleiknum sem fer á fjalirnar í lok apríl. Hallgrímur stígur á svið kl. 15.
 
Starfsfólk Þjóðleikhússins mun vera boðið og búið að greina frá starfi hússins og sýningum leikársins og svara spurningum gesta um hvaðeina sem tengist leikhúsinu.

Nánari upplýsingar um dagskrána og boðssýningar í tilefni af Vetrarhátíð má finna á heimasíðunni www.leikhusid.is

{mos_fb_discuss:3}