Leikfélag Hafnarfjarðar stendur að örverkahátíð laugardaginn 4. febrúar í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Þar er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur heldur verða frumsýnd hvorki meira né minna en sex frumsamin verk. Og eins og það sé ekki nóg að þá fengu höfundarnir ekki nema viku til að semja verkið og leikstjóri svo aðra viku til að koma verkinu á fjalirnar. Öll verkin eiga það sameiginlegt að fjalla um dauðann frá hverju því sjónarhorni sem höfundi datt í hug. Útkoman er svo þessi örverkahátíð sem nú er orðin að veruleika.

Það er ánægjulegt að segja frá að það eru jafnt handritshöfundar, leikstjórar og leikarar sem nú eru að stíga sín fyrstu skref með Leikfélagi Hafnarfjarðar og það er alltaf gaman að fá inn ferskar hugmyndir og hæfileika. Leikfélag Hafnarfjarðar hvetur alla þá sem hafa áhuga á að starfa með félaginu, hvort sem það er á sviðinu eða utan þess til að ganga til liðs við það og upplifa töfra leikhússins frá nýju sjónarhorni.

Feigð verður laugardaginn 4. febrúar í Gaflaraleikhúsinu við Strandgötu og hefst kl. 20.00 en húsið opnar kl. 19:30. Miðaverð er 1500.- og tekið er á móti pöntunum milli 16 og 18 alla virka daga og á laugardeginum frá kl. 17 í síma 565-5900 eða á midasala@gaflaraleikhusid.is.

{mos_fb_discuss:2}