Föstudaginn 9. janúar stíga félagarnir í Hundi í óskilum á Nýja svið Borgarleikhússins og sýna nýjasta verk sitt Öldin okkar. Leikritið var frumsýnt á Akureyri  30. okt. sl. og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda. Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í óskilum setja verkið upp í tilefni af 20 ára afmælis sveitarinnar. Hundinum er náttúrlega ekkert íslenskt óviðkomandi; hann gefur sig í tali og tónum að mannlífinu til sjávar og sveita, ræður í gjörðir stjórnmálamanna og spyr allra spurninganna sem brenna í brjóstum leikhúsgesta.

Öldin okkar er á ákveðinn hátt framhald á Sögu þjóðar sem sýnt var 80 sinnum fyrir fullu húsi á Akureyri og í Borgarleikhúsinu 2012-2013, hlaut þrjár Grímutilnefningar og hlaut eina Grímu. Saga þjóðar var sýnd á RÚV nú á nýársdag. Þar fóru þeir félagar Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson á hundavaði í gegnum Íslandssöguna en skildu þó eftir smábút frá aldamótum 2000 fram á okkar dag. Í Öldinni okkar ljúka þeir loks verkinu með því að spóla sig í tali og tónum í gegnum samtímasöguna, ris og fall fjármálakerfisins og ýmsa gjörninga sem sett hafa svip á hina viðburðaríku 21. öld á Íslandi. Frábær skemmtun með helstu tvenndarleikurum landsins!

Aðstandendur Höfundur: Hundur í óskilum | leikstjóri: Ágústa Skúladóttir |Tónlist: Hundur í óskilum | Leikmynd og búningar: Axel Hallkell Jóhannesson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Leikarar: Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G.Stephensen.