Sjónleikur Áhugaleikhúss atvinnumanna, Ódauðlegt verk um draum og veruleika, verður frumfluttur Miðvikudaginn 27.október í Útgerð Hugmyndahúss háskólanna. Verkið er fjórða í röð fimm Ódauðlegra verka um mannlegt eðli og tilvist og gerist á huglægum stað handan tíma og rýmis. Verkið spyr hvort sé raunverulegra, það sem fer fram í huga fólks eða það sem sýnilega hendir í veraldlegum heimi. Erum við saman í þessu? Hver metur? Hver upplifir? Hverjum er sama? Leikstjóri og höfundur er Steinunn Knútsdóttir.

Verkin fimm eru rannsókn á áráttuhegðun mannkyns og ófullkomleika. Þau feta sig inn í augnablikið þar sem maðurinn stendur berskjaldaður frammi fyrir guði og viðurkennir vanmátt sinn. Hvert verk um sig tekur á eiginleikum, þáttum eða áráttum í mannlegri hegðun og tilvist og varpa nýju ljósi á þekktar staðreyndir. Fyrri verk eru Ódauðlegt verk um stjórn og stjórnleysi (2005), Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna (2009) og Ódauðlegt verk um stríð og frið (2010).

Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur atvinnufólks í sviðslistum sem hefur áhuga á frelsi til óháðrar listsköpunar í leiklist. Leikhúsið lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi.  Markmiðið með starfinu er að að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Leikhúsið vill ekki fara í viðskiptasamband við áhorfendur sína og býður þess vegna áhorfendum í samtal án endurgjalds og þiggur ekki aðgangseyri á sýningar sínar.

Listamenn leikhússins fengu úthlutað listamannalaunum vegna verkefna sinna árið 2010. Hópurinn er einnig að vinna að röð 12 örverka um áráttur, kenndir og kenjar sem flutt í eru beinni útsendingu á veraldarvefnum í lok hvers mánaðar. Verkin eru viðbrögð við atburðum líðandi stundar og verða flutt öll í striklotu í Desember og munu þá marka annál ársins 2010.

Sjónleikurinn er sýndur í Útgerð Hugmyndahúss háskólanna við Grandagarð:

Miðvikudaginn 27. október kl. 21
Sunnudaginn 7. nóvember kl. 21
Þriðjudaginn 9. nóvember kl. 21
Miðvikudaginn 10. nóvember kl. 21
Sunnudaginn 14. nóvember kl. 21
Fimmtudaginn 18.nóvember kl. 21

Textar: Leikhópurinn
Leikmynd og búningar: Una Stígsdóttir
Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Hannes Óli Ágústsson, Lára Sveinsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Ólöf Ingólfsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson.
Myndbandsvinnsla: Ólafur Finnsson

{mos_fb_discuss:2}