Halaleikhópurinn hefur ráðið Sigrúnu Valbergsdóttir til að endurskrifa leikrit sitt, Ábrystir með kanil og setja upp með félaginu í vetur. Verkið sem endurskrifað hefur fengið nafnið Obbosí, eldgos!, er bráðskemmtilegur farsi sem gerist á heimili ferðaþjónustubónda. Margar kostulegar persónur koma þar við sögu og eins og í öllum góðum försum hleðst upp misskilningur á misskilning ofan.
Persónugalleríið er fjölbreytt og samanstendur m.a. af heimasætu, línudansara, spákonu, draumráðanda, leikfimikennara, árunuddara, og fótanuddari svo einhverjir seú nefndir auk starfsfólks almannavarna, svo augljoslega gengur á ýmsu í verkinu.
Fyrsti samlestur á verkinu verður fimmtudaginn 14. okt. kl. 17 – 21 í Halanum, Hátúni 12. Allir eru velkomnir. Leikfélagið vantar leikara sem og fólk á bak við tjöldin, s.s. leikmyndasmiði, tæknifólk, fólk í búningadeild og förðun svo fátt eitt sé talið upp. Mörg eru störfin og allir geta eitthvað er mottóið í þeim efnum. Æft verður í nóvember, mánudaga og fimmtudaga kl. 17 – 21 og laugardaga kl. 11 – 15. Gert verður hlé í desember og haldið áfram í janúar.
Halaleikhópurinn býður alla velkomna á samlesturinn nýja sem gamla félaga og fólk má endilega takið með gesti.
Halinn er í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12 gengið er inn að norðanverðu um dyr merktar 2 þar sem stendur Sundlaug og dagvist fyrir ofan dyrnar.
Mynd frá Aaron Thomas á Unsplash