Laugardagskvöldið 13. maí verða flutt fjögur ný örleikrit eftir jafnmörg norræn leikskáld og bera þau yfirskriftina CRASH COURSE. 

Uppfærslan er hluti af stóru norrænu verkefni á vegum Dramafronten í Danmörku en sextán leikskáld frá Íslandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð leiddu saman hesta sína síðasta sumar og hafa svo unnið í fjögurra manna teymum að verkum sem um þessar mundir eru sýnd í löndunum fjórum, auk þess sem öll verkin sextán verða sett upp í Kaupmannahöfn í júní sem hluti af sviðslistahátíðinni CPH Stage.

Í Reykjavík eru það fjögur verk eftir leikskáldin Amalie Olsen (DK), Fredrik Brattberg (NO), Anders Duus (SV) og Sölku Guðmundsdóttur (IS) sem áhorfendur fá að sjá í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur, en alls koma tólf leikarar fram. Verkin sem öll gerast samtímis og fléttast saman á óvæntan hátt eru sett upp sem æfðir leiklestrar á fjórum stöðum í nágrenni Tjarnarbíós og ganga áhorfendur á milli. Á vegi þeirra verða meðal annars hjón á barnlausu kvöldi, eldri kona á stefnumóti við fortíðina, par sem fær óvæntan gest á glugga og unglingsstúlka sem talar tungum.

Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir, Oddur Júlíusson, Hallgrímur Ólafsson, Kristbjörg Kjeld, Hjalti Rúnar Jónsson, Árni Beinteinn Árnason, Bjarni Snæbjörnsson, María Heba Þorkelsdóttir, Thelma Marín Jónsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Þorleifur Einarsson.

Gengið er af stað frá Tjarnarbíói kl. 21:00.

Miðaverð: 1500 kr (Gildir á öll verkin)

Verkin:

FORDYRI HELVÍTIS OPNAST e. Amalie Olsen

Amalie Olsen útskrifaðist sem leikskáld frá Aarhus Teater og hefur vakið verðskuldaða athygli í Danmörku síðustu misserin fyrir leikverk sín. Nýjasta verk hennar, De Rene Rum, var sett upp í Aarhus Teater haustið 2016.

SPRENGJA e. Fredrik Brattberg

Leik- og tónskáldið Fredrik Brattberg hlaut Ibsen-verðlaunin árið 2012 fyrir verk sitt Tilbakekomstene, var tilnefndur til frönsku Godot-verðlaunanna 2016 og er eitt þekktasta leikskáld Noregs um þessar mundir. Verk hans hafa verið sviðsett víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu.

SJÖUNDA BARNLAUSA KVÖLDIÐ e. Anders Duus

Sænska leikskáldið Anders Duus hefur skrifað á fimmta tug leikverka fyrir alla aldurshópa og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, nú síðasta leikskáldaverðlaun sænsku Ibsen-samtakanna 2017. Hann starfar einnig sem dramatúrg við Örebro-leikhúsið.

PÚSLIÐ SEM MIG VANTAÐI e. Sölku Guðmundsdóttur

Salka hefur skrifað sviðs- og útvarpsverk fyrir börn og fullorðna og hafa verk hennar meðal annars ratað til Skotlands, Ástralíu og Danmerkur og hreppt ýmis verðlaun og tilnefningar innanlands sem utan. Salka gegnir starfi leikskálds Borgarleikhússins 2016-17.

Verkefnið nýtur styrkja frá Norræna menningarsjóðnum, Kulturkontakt Nord, Statens Kunstfond, A.P. Møller Fonden og Københavns Scenekunstudvalg. Íslensku leikskáldin nutu stuðnings frá Reykjavík – bókmenntaborg UNESCO. Samstarfsaðilar á Íslandi eru Tjarnarbíó, Norræna húsið og Félag leikskálda og handritshöfunda.