Skrímslið í fornsögum og þjóðtrú

Norræn barnaleikhúshátíð verður haldin í Östersund, Svíþjóð, dagana 6.-11. ágúst 2013.
Skipuleggjandi er Sænska áhugaleikhúsbandalagið, ATR, í samvinnu við NAR, SAR og Östersunds Teaterverkstad með styrk frá Norræna menningarsjóðnum.

Til þátttöku er boðið leikhópum með þátttakendum á aldrinum frá 10-12 ára frá Danmörk, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi, suður-Samalandi, Svíþjóð og Álandseyjum.

Bandalag íslenskra leikfélaga tekur við umsóknum sem skila skal fyrir 28. febrúar 2013 á netfangið info@leiklist.is

Yfiskrift hátíðarinnar er Skrímslið í fornsögum og þjóðtrú. Vísað er til sæskrímslisins Storsjöodjuret sem hefur reglulega birst íbúum í Storsjön í Östersund allt frá 16. öld og til okkar daga (svona líkt og Lagarfljótsormurinn okkar). Farið er framá að leiksýningar þátttökuhópanna byggi á sambærilegum sögnum í fornsögum og þjóðtrú hvers lands. Sýningarlengd má að hámarki vera 1 klst.

Ef umsækjendur hafa einhverjar spurningar ber þeim að snúa sér til framkvæmdastjóra ATR, Per Lithammer, hann hefur netfangið per.lithammer@atr.nu sími +46 21 470 41 65.

Bandalag íslenskra leikfélaga tekur við umsóknum sem skila skal fyrir 28. febrúar 2013 á netfangið info@leiklist.is. Ef fleiri en einn hópur sækir um þá verður að venju skipuð þriggja manna valnefnd til að útkljá hvaða hópur fer sem fulltrúi Íslands á hátíðina. Tilkynna þarf valið til Svíþjóðar þann 15. mars.

ATR greiðir uppihald og þátttöku fyrir 10 barna leikhóp, 1 leikstjóra og 1 umsjónarmanns, alls fyrir 12 manns. Heimilt er að koma með stærri hópa en þátttakendur greiða þá sjálfir þann aukakostnað sem það inniber. Ferðakostnað verða þátttakendur að greiða sjálfir. Barnaleikhópar aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga ganga fyrir.

Umsóknareyðublað og upplýsingar á sænsku hafa verið sendar öllum aðildarfélögum Bandalagsins í tölvupósti.