Möguleikhúsið er nú að hefja átjánda leikár sitt, en frá upphafi hefur leikhúsið lagt áherslu á að bjóða upp á frumsamið íslenskt efni fyrir börn og unglinga og verður þetta leikár svo sannarlega engin undantekning frá þeirri reglu.

Það verða níu íslensk verk á boðstólum hjá Möguleikhúsinu í vetur, ein ný sýning, ein sem tekin er upp að nýju eftir nokkurra ára hlé, fjórar frá fyrra leikári og tvær gestasýningar. Allt eru þetta farandsýningar sem unnt er að koma með í skóla, auk þess sem hópum býðst að koma og sjá sýningarnar í sal Möguleikhússins við Hlemm. Í leikhóp Möguleikhússins í vetur eru fjórir leikarar, Aino Freyja Järvelä, Alda Arnardóttir, Bjarni Ingvarsson og Pétur Eggerz, en auk þeirra leikur Elfar Logi Hannesson í tveimur gestasýningum frá Kómedíuleikhúsinu á Ísafirði.

Þær sýningar sem í boði eru veturinn 2007 – 2008 eru þessar: 
 
 HÖLL ÆVINTÝRANNA
eftir Bjarna Ingvarsson í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar.
Sagnaþulur á stefnumót við áhorfendur og færir sögur og ævintýri í leikrænan búning á einfaldan hátt. Geiturnar þrjár trítla yfir brúna þar sem risinn ógurlegi liggur í leyni, undurfögur höll býr yfir ótal ævintýrum og haltur hani svífur um loftin blá á vængjum ímyndunaraflsins.
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 8 ára
 
LANDIÐ VIFRA
Byggt á barnaljóðum Þórarins Eldjárns
Barnaljóð Þórarins Eldjárn hafa notið mikilla vinsælda. Hér spretta persónur þessa einstæða ljóðaheims fram bráðlifandi, m.a. Guðmundur á Mýrum sem borðar bækur, losarann sem allt vill losa og karlinn með orðasugu í eyra.
Hér gefst gott tækifæri til að efla málvitund barnanna því hluti af leiknum er að fá börnin til að yrkja sjálf og taka þátt í ljóðahappadrætti í lok sýningarinnar.
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 10 ára
 
SMIÐUR JÓLAVEINANNA
eftir Pétur Eggerz
Í litlum kofa, hátt upp til fjalla, situr Völundur gamli, smiðurinn sem  sér um að smíða allar gjafirnar sem jólasveinarnir færa börnunum á jólunum. Eftir að síðustu sveinarnir eru farnir til byggða birtast óvæntir gestir, tröllabörnin Þusa og Þrasi og sjálfur jólakötturinn. Völundur tekur vel á móti þeim og saman rifja þau upp söguna af fæðingu Jesú. Þeim þykir sagan svo skemmtileg að þau ákveða að leika hana saman.
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 10 ára
 
LANGAFI PRAKKARI
leikrit eftir Pétur Eggerz byggt á sögum sögum Sigrúnar Eldjárn.
Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni.  Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera bralla ýmislegt saman, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira.  Þetta er enginn venjulegur langafi
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 10 ára
 
SÆMUNDUR FRÓÐI
í leikgerð Péturs Eggerz
Sæmundur fróði er ein af kunnari persónum úr íslensku þjóðsögunum. Hann fer til náms í Svartaskóla þar sem Kölski sjálfur ræður ríkjum. Með klókindum tekst honum að sleppa úr klóm lærimeistarans en eftir það hefst eltingaleikur Kölska við Sæmund, og þá reynir á hvor sé klókari þegar á hólminn er komið. Hér er um að ræða nýja og spennandi sýn á sögurnar um galdramanninn slynga þar sem spenna og gamansemi fléttast saman.
Fyrir áhorfendur á aldrinum 6 – 12 ára
 
HVAR ER STEKKJARSTAUR?
Eftir Pétur Eggerz.
Það er kominn 12. desember, en jólasveinninn Stekkjarstaur kemur ekki til byggða.  Þegar Halla fer að athuga hvernig á því standi kemst hún að því að jólasveinunum er orðið svo illa við allan isinn og þysinn í mannheimum að þeir hafa ákveðið að hætta að fara til byggða um jólin.  Tekst Höllu að fá þá til að skipta um skoðun?
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 10 ára,
Sýnt í desember.
 
AÐVENTA
eftir Gunnar Gunnarsson í leikgerð og leikstjórn Öldu Arnardóttur
Aðventa er án efa vinsælasta saga Gunnars Gunnarssonar og er enn gefin út í stórum upplögum víða um lönd.
Vinnumaðurinn Benedikt fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum villuráfandi sauðum í öruggt skjól fyrir hátíðirnar. Klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi.
Fyrir eldri bekki grunnskóla og framhaldssóla.
FRUMSÝNT Í MARS
 
GÍSLI SÚRSON
Leikgerð Elfars Loga Hannessonar og Jóns Stefáns Kristjánssonar
Leikurinn byggir á einni af þekktustu íslendingasögunum, Gísla sögu Súrssonar, sem mikið hefur verið notuð til kennslu í skólum landsins. Sýningin um Gísla Súrsson hefur hlotið afbragðsgóða dóma jafnt gagnrýnenda sem áhorfenda og hefur leikurinn sérstaklega lagst vel í unga fólkið enda er sagan sett fram á aðgengilegan hátt og textinn fluttur á nútímamáli.
Gestasýning Kómedíuleikhússins sem heimsækir höfuðborgarsvæðið 1. október – 12. október og 25. febrúar – 7. mars
Fyrir eldri bekki grunnskóla
 
SKRÍMSLI
Einleikinn gamanleikur eftir Pétur Eggerz og Elfar Loga Hannesson.
Frá örófi alda hafa skrímsl af ýmsum toga reglulega sést í sjó og vötnum á Íslandi. En hverjar eru þessar dularfullu verur, hvar er þær helst að finna og hvernig er best að bera kennsl á þær?
Þessum spurningum svarar skrímslafræðingurinn Jónatan Þorvaldsson og setur um leið fram óvéfengjanlega sannanir fyrir tilvist skrímsla í sjó og vötnum á Íslandi.
Gestasýning Kómedíuleikhússins sem sýnd verður á höfuðborgarsvæðinu 1. október – 12. október og 25. febrúar – 7. mars. Fyrir eldri bekki grunnskóla.