Æfingar eru nú í fullum gangi hjá útskriftarárgangi leiklistardeildar Listaháskóla Íslands, en starfsemi Nemendaleikhúsins 2009-2010 er hafin. Nemendaleikhúsið hefur nú fengið aðsetur sitt í Smiðjunni á Sölvhólsgötu en í vetur verða sýndar þrjár sýningar í Smiðjunni. Fyrsta verkefni vetrarins er hin magnaða háðsádeila Eftirlitsmaðurinn eftir Nikolai Gogol í nýrri þýðingu Bjarna Jónssonar.

Gogol hefði orðið 200 ára í ár en er svo sannarlega sígildur í bestu merkingu þess orðs. Hann er talinn til höfuðskálda Rússa og leikritið Eftirlitsmaðurinn er álitið þjóðargersemi þar í landi. Þekktasta skáldsaga hans er vafalaust Dauðar sálir.

Leikritið Eftirlitsmaðurinn gerist í lítill borg þar sem spillingin er allsráðandi. Ráðamenn mergsjúga þegnanna, samfélagið líður fyrir græðgi og lágar hvatir þeirra sem deila og drottna. Það verður uppi fótur og fit þegar fréttist, að mættur sé á svæðið eftirlitsmaður frá Pétursborg til að taka út stjórnsýsluna. Í öllu uppnáminu fara þeir mannavillt; auðnuleysingi og spilafíkill er tekinn fyrir þessa meiriháttar persónu úr hinum glæsta höfuðstað. Úr verður krassandi flétta þar sem allt er lagt í sölurnar til að bjarga eigin skinni.

Leikstjóri er Stefán Jónsson (sem hefur m.a. leikstýrt Forðist okkur og Legi), leikmynd er í höndum Móeiðar Helgadóttur, Myrra Leifsdóttir sér um búninga og gerfi, tónlist er samin af Margréti Kristínu Blöndal (Möggu Stínu) nemanda í tónsmíðum í LHÍ og lýsing er í höndum Mika Haarinen skiptinema í LHÍ.

Frumsýning á Eftirlitsmanninum er föstudaginn 9. október n.k.

Næsta sýningin Nemendaleikhússins er svo er nýtt verk eftir Sigtrygg Magnason sem ber nafnið „Bráðum hata ég þig“ en það verður frumsýnt í janúar 2010.

Nemendaleikhúsið í vetur skipa:
Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Jensson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.