Föstudaginn 23. september frumsýndi Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands Á botninum eftir Maxim Gorkí, í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Verkið er fyrsta uppfærsla vetrarins hjá Nemendaleikhúsinu en í útskriftarhópnum eru 10 verðandi leikarar. Sýningar fara fram í Smiðjunni, leikhúsi Listaháskóla Íslands við Sölvhólsgötu 13.

Leikritið Na-dné, – Á botninum eftir Maxim Gorkí var frumflutt í Listaleikhúsinu í Moskvu 18. Desember 1902 í leikstjórn Konstantíns Stanislavskís sem lék líka hlutverk Satíns. Ári síðar var það frumsýnt í Berlín og gekk þar um langa hríð fyrir fullu húsi. Fyrsta Norðurlandasýningin mun hafa verið í Fahlström Teater í Noregi 1903. Verkið hefur síðan verið leikið reglulega vítt og breitt um veröldina og birst í ótal gerðum fyrir leiksvið, útvarp, sjónvarp og hvíta tjaldið. Frægustu kvikmyndirnar sem byggja á þessu verki eru án efa Les Bas-fonds eftir Jean Renoir frá 1936 og mynd Akira Kurosawa, Donzoko frá 1957.

Verkið hefur tvisvar sinnum verið sett upp af atvinnufólki á Íslandi. Fyrst í Þjóðleikhúsinu 1976, en mikill metnaður var lagður í þá uppfærlu og listrænir stjórnendur sóttir til Sovétríkjanna. Leikstjórinn Viktor Strinzhov og leikmynda- og búningahönnuðurinn David Borowski leiddu leikhóp Þjóðleikhússins í sýningu sem þótti tímamótaviðburður í okkar stuttu leiklistarsögu. Í þessari uppfærslu var notuð þýðing Halldórs Stefánssonar og verkið kallað Náttbólið.  Haustið 1995 sviðsetti Íslenska leikhúsið nýja þýðingu Megasar Í djúpi daganna í Lindarbæ. Leikstjórn var í höndum Þórarins Eyfjörð og í þessari sýningu lét ný kynslóð íslenskra leikara að sér kveða svo um munaði og nú er röðin komin að útskriftarárgangi Listaháskóla Íslands að kljást við þetta sígilda verk Gorkís og enn teljum við það eiga brýnt erindi því sama hvernig sem veröldin velkist þá eru ávalt einhverjir sem verma botnsætin, sitja Á botninum.

Verkið fjallar um líf og dauða á botninum, um lífsbaráttu í örbirgð og auðnuleysi, en jafnframt um löngunina eftir betri kjörum og lífsþorstann sem knýr hana áfram. Það fjallar um lífsþróttinn í voninni og örvæntingu vonbrigðanna. Átökin hverfast m.a. um napurlegan veruleika og margslunginn veruleikaflótta, um miskunnarlausan sannleika og hughreystandi lygi, –  það að lifa af í heimi á hverfandi hveli, – eða komast burt. Fólkið hans Gorkis þráði frelsi um fram allt, – hvað sem það kostaði og fyrir þetta frelsi létu menn fallast til botns þar sem fjölbreytileiki mannlífsins blómstrar og visnar við sögur, söng og dans og orð, orð, orð….

Útskriftarhópurinn eru þau Hjörtur Jóhann Jónsson, Kolbeinn Arnbjörnsson, Olga Sonja Thorarensen, Ólöf Haraldsdóttir, Pétur Ármannsson, Saga Garðarsdóttir, Sara Margrét Nordahl, Sigurður Þór Óskarsson, Snorri Engilbertsson og Tinna Sverrisdóttir.

Leikgerð er byggð á þýðingu Megasar, tónlist og hljóðmynd er í höndum Björns Halldórs Helgasonar, leikmyndar- og búningahönnuður er Eva Signý Berger og lýsingu og tæknistjórn annast Egill Ingibergsson.

Sýningafjöldi er takmarkaður og er því ráðlegt að tryggja sér miða í tíma.  Miðasala fer fram á midasala@lhi.is, í síma 895 6994 og á midi.is. Miðaverð er einungis 1500 krónur.

{mos_fb_discuss:2}