Ýmsum óþrifnaði hefur ráðherrann ungi sópað undir teppi, atvinnulygarinn sjálfur, en þó aldrei dauðum manni og það á hótelherbergi – með viðhaldinu – sem er innsti koppur í búri stjórnarandstöðunnar. Það stóð ýmislegt til í þessu hótelherbergi en ekki þetta! Hvað gera ráðherrar nú? Þeir hringja auðvitað í strangheiðarlegan og vammlausan aðstoðarmann sem lendir í skítverkunum eins og venjulega. Það þarf að sjá um viðhaldið, fela verksummerki, losna við líkið, bera fé á útsmoginn þjón og síðast en ekki síst að halda öllu leyndu fyrir afbrýðisömum eiginmönnum og -konum.
Þessi drepfyndni gamanleikur kemur úr smiðju Ray Cooney (1932), konungs gamanleikjanna. Nei, ráðherra (Out of Order) hlaut hin eftirsóttu Olivier-verðlaun sem besti gamanleikurinn í Bretlandi þegar verkið var frumsýnt og hefur farið sigurför um heiminn. Sýningin sló rækilega í gegn hér á landi og var sýnt 55 sinnum í Borgarleikhúsinu síðasta vor fyrir troðfullu húsi. Áhorfendur veltust um af hlátri og gagnrýnendur lofuðu sýninguna í hástert. Á Grímuhátíðinni var hún svo valin sýning ársins af áhorfendum. Einvalalið leikara tekur þátt í sýningunni, Guðjón Davíð Karlsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Sigurður Sigurjónsson eru í burðarhlutverkum.
{mos_fb_discuss:2}