Leiklistarhátíðir norður-evrópska áhugaleikhúsráðsins, NEATA, hafa verið haldnar á tveggja ára fresti frá árinu 2000. Hátíðin hefur gengið á milli aðildarlandanna í ákveðinni röð og árið 2016 var komið aftur að Norðmönnum. Því miður stendur illa á hjá norska bandalaginu, það er eiginlega búið að leggja það niður og verið er að færa verkefni þess til landshlutasambandanna. Þannig að hátíðin mun ekki verða haldin þar á næsta ári. Þetta var ekki vitað fyrr en sl. sumar og brugðust Færeyingar þá skjótt við og buðust til að halda stuttverkahátíð haustið 2016 í nafni NEATA en fyrirvarinn var orðinn allt of stuttur til að það væri hægt að fjármagna fullburða leiklistarhátíð. Aðalfundur NEATA í Belgíu, haldinn í júlí sl. samþykkti þetta boð Færeyinga og nú er undirbúningur kominn í fullan gang.

Svona verður þetta:

– Hátíðin verðu haldin í Færeyjum dagana 7. og 8. október 2016

– Hvert aðildarland má koma með mest 3 stuttverk

– Öll verkin verða að vera nýskrifuð

– Hvert verk má að hámarki vera 15 mín. í sýningu

– Halda þarf kröfum varðandi ljós og aðra tækni í lágmarki

– Það verða aðeins gefnar 5 mín. í skiptingar milli þátta

– Hátíðarhaldarar gera þær kröfur til sýninganna að þær séu sjónrænar og auðskildar áhorfendum

– Sækja þarf um þátttöku til Bandalags ísl. leikfélaga fyrir 15. mars 2016. Eyðublöð verða send út síðar og upptökur þurfa að fylgja

– Bandalagið skipar valnefnd sem skilar af sér fyrir 30. mars

– 31. mars tilkynnir Bandalagið Færeyingum hvaða verk fara frá Íslandi

– Um miðjan mars verður tilkynnt hvort öll aðildarlöndin nota sinn kvóta. Ef ekki þá skiptist hann á milli áhugasamra

Dagskráin verður þannig að föstudagurinn 7. október verður notaður fyrir æfingar og undirbúning leikhópanna og fundi stjórna NEATA og NAR. Hátíðin sjálf verður svo sett á laugardagsmorguninn 8. okt. og verkin sýnd með stuttu millibili og matarhléum eins lengi og þörf er á. Um kvöldið er svo hátíðarkvöldverður með gleði og glensi fram á nótt.

Fjármögnun hátíðarinnar er rétt að byrja þannig að rétt er að gera ráð fyrir að þátttakendur þurfi sjálfir að greiða allan ferðakostnað. Varðandi uppihald og gistingu í Færeyjum þá er það ekki heldur alveg komið á hreint en reiknað er með að hátíðin geti greitt fyrir einhvern hóp frá hverju landi. Upplýsingar um það koma síðar.